Innlent

"Svelta okkur til hlýðni“

Birgir Olgeirsson skrifar
Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
„Því miður sannar þetta grun okkar um að alltaf hafi staðið til að svelta okkur til hlýðni í samningaferlinu,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna, aðspurð um viðbrögð sín um fregnir þess efnis að til standi að setja lög á verkfall félagsins.


Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í kvöld að setja lög á verkfall BHM og Félag hjúkrunarfræðinga og verður það að óbreyttu gert á morgun.

„Ég get ekki sagt að þetta komi mér á óvart en ég verð að segja að þetta eru vondar fréttir. Úr því að þeim tókst ekki að svelta okkur þá er þetta eina ráðið sem ríkisvaldið hefur,“ en hún bendir jafnframt á 

að ríkið sé einnig vinnuveitandi í þessari deilu.

„Það er gefinn tími til 1. júlí til að ná samningum og ég vona að það sé einlægur ásetningur yfirvalda að ganga að samningaborðinu með opnum hug.“
Ólafur Skúlason
Formaður Félags hjúkrunarfræðinga, Ólafur G. Skúlason, óttast það sem koma skal.  „Þetta eru klárlega mikil vonbrigði að ríkisstjórnin velji þessa leið í stað þess að ganga til samninga og ég hef verulegar áhyggjur af því til hvers þetta leiðir,“ segir hann í samtali við Vísi um ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

„Ég hef heyrt að fólk mun ekki taka þessu þegjandi og ég óttast að það muni leiða af sér uppsagnir en það er hvers og eins að ákveða það.“

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur boðað til mótmæla vegna málsins og munu þau hefjast klukkan 10.30 á Austurvelli.

 

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×