Sport

Gullstelpurnar í strandblakinu: Viljum á Ólympíuleika

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sjálfsagt voru ekki margir sem reiknuðu með því að Ísland ynni gull í strandblaki kvenna á Smáþjóðaleikunum en það varð engu að síður raunin í gær.

Ísland vann alla sína leiki í keppninni og tryggði sér því gullið með yfirburðum. Það var frábær stemning á strandblaksvellinum í Laugardal í gær þegar stelpurnar unnu Mónakó, 2-0.

„Það er ekkert bull. Bara vinna alla leikina. Við áttum reyndar ekki von á því en eftir fyrstu 2-3 leikina sáum við að við gátum þetta alveg,“ sagði Berglind Gígja eftir sigurinn í gær.

„við höfum aldrei keppt á Smáþjóðaleikunum áður og vissum því ekkert út í hvað við vorum að fara. Margir keppendur þekkja hverja aðra en við þekktum engan,“ bætti hún við.

„Við komum því alveg hlutlausar til leiks og þar sem að Ísland er ekki þekkt strandblaksþjóð voru örugglega einhverjar sem vanmátu okkur í upphafi. Það var okkur í hag.“

Elísabet segir að næst á dagskrá sé að fara til Danmerkur þar sem þær munu spila á dönsku keppnismótaröðinni.

„Íþróttin þar er allavega stærri en á Íslandi,“ sagði hún og bætti við að það væri ekki á dagskránni að hætta í bráð.

„Við ætlum okkur að komast á Ólympíuleikanna í framtíðinni. Það er stóra markmiðið hjá okkur.  En til þess að ná því þurfum við að æfa meira,“ sagði Elísabet.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×