Innlent

Tveir alvarlega slasaðir eftir bílslys við Snæfellsbæ

Bjarki Ármannsson skrifar
Þyrlan flutti þrjá á Landspítalann, þar af tvo alvarlega slasaða.
Þyrlan flutti þrjá á Landspítalann, þar af tvo alvarlega slasaða. Vísir/Stefán
Tveir erlendir ferðamenn eru alvarlega slasaðir eftir bílslys á þjóðveginum við Hellissand nú á tíunda tímanum. Þyrla Landhelgisgæslunnar er á leið að sækja hina slösuðu.

Skessuhorn greinir frá þessu. Jeppi ferðamannanna er sagður hafa oltið út af veginum og farið nokkrar veltur áður en hann staðnæmdist utan vegar. Beita þurfti klippum á bílflakið til að ná farþegunum út.

Samkvæmt lögreglu í Snæfellsbæ voru fjórir farþegar til viðbótar í bílnum. Þeir eru ekki taldir jafn slasaðir.

Uppfært 11.00: Þyrla Landhelgisgæslunnar er nú á leið frá slysstað á Landspítalann og er von á hennni þar um klukkan 11.15.

Að sögn lögreglunnar í Snæfellsbæ voru alls þrír farþega bílsins um borð í þyrlunni, þar af þeir tveir sem sagðir eru alvarlega slasaðir. Lögregla vill ekki gefa meira upp um ástand þeirra.

Þeir þrír sem ekki voru fluttir með þyrlunni hafa verið fluttir á Heilsugæslustöðina í Ólafsvík. Lögregla segir að þaðan verði þeir sennilega fluttir til frekari skoðunar á Landspítalanum síðar.

Uppfært 11.45: Þyrlan er lent hjá Landspítalanum. Tveir voru fluttir úr henni á sjúkrabörum en sá þriðji virtist geta gengið sjálfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×