Innlent

Vantar fimm hundruð stofnanarými fyrir aldraða á næstu fimm árum

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Kristján Þór Júlíusson segir öldrun þjóðarinnar áskorun, verkefni sem þurfi að takast á við.
Kristján Þór Júlíusson segir öldrun þjóðarinnar áskorun, verkefni sem þurfi að takast á við.
Páll Matthíasson forstjóri Landspítala tók saman á ársfundi Landspítalans atburði ársins svo sem ebólu undirbúning, farómaura, myglu og verkfall.  Hann segir tilefni til bjartsýni þrátt fyrir að nú standi yfir enn viðameira verkfall en hófst á síðasta ári og skýrði frá því að framundan eru framkvæmdir á Landspítalalóðinni.

„Uppbygging er svo sannarlega í augsýn þótt að það megi hljóma ótrúlega þegar við erum hér í skugga verkfalla. Við erum bjartsýn, við sjáum það að uppbygging á Landspítala með nýbyggingum er loksins  að hefjast.“

Nýlega var greint frá því að á spítalanum eru 78 eldri borgarar inniliggjandi á spítalanum, sem geta ekki útskrifast. 

„Það sem vantar og ég veit að  stjórnvöld eru að vinna í er að ríða heildarnet fyrir heilbrigðisþjónustuna. Þannig að Landspítalinn sé að sinna þeim verkefnum sem Landspítalinn sinnir best og heilsugæslan sinni  þeim verkefnum sem hún getur sinnt. Að aldrað fólk geti verið heima hjá sér með stuðningi eða á hjúkrunarheimilum. Þannig að þetta lendi ekki allt á herðum Landspítala. Eins öflugur og hann er, getur hann ekki verið allt fyrir alla.“

Á fundinum kom fram að á næstu fimm árum vantar fimm hundruð stofnanarými fyrir aldraða á landinu öllu. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir öldrun þjóðarinnar verkefni sem þurfi að takast á við.

„Við erum með um 70 aldraða einstaklinga innan vébanda Landspítalans.Þar af eru 48 á Vífilstöðum, svo eru hinir á Landspítalanum. Þetta er langtímaverkefni, það liggur fyrir að fram til 2020 er mat manna að það vanti 500 stofnanarými á landinu öllu og það er töluverður stapi. Stofnkostnaður við það er einhvers staðar á bilinu 12-15 milljarðar og rekstrarkostnaður 5 milljarðar á ári bara við þessi rými. Þetta er verkefni sem við þurfum að sjá stað í lengri tíma áætlunum.“

Kristján Þór kynnir áætlun hvernig skal takast á við vandann um mitt ár. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×