Erlent

Svartsýnir á að samkomulag náist við Grikki

Atli Ísleifsson skrifar
Fjármálaráðherrar Þýskalands og Grikklands, þeir Wolfgang Schäuble og Yanis Varoufakis, ræðast við.
Fjármálaráðherrar Þýskalands og Grikklands, þeir Wolfgang Schäuble og Yanis Varoufakis, ræðast við. Vísir/AFP
Fjármálaráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins koma saman í dag, meðal annars til að ræða málefni Grikklands. Í frétt BBC segir að svartsýni ríki um að það takist að endursemja um endurgreiðslur á lánum til Grikkja.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandsins vilja að ekki verði gerðar breytingar á þegar gerðum samningum um endurgreiðslur á 240 milljarða evra lánum til Grikkja.

Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, sagðist fyrr í dag ekki vera bjartsýnn á að samkomulag næðist. „Samkvæmt því sem ég hef heyrt um þær tæknilegu viðræður sem fram fóru um helgina þá er ég mjög svartsýnn, en við fáum skýrslu síðar í dag og tökum þá stöðuna,“ sagði Schäuble í samtali við þýska fjölmiðla.

Í frétt BBC kemur fram að Schäuble ítreki að hann vilji ekki að Grikkir yfirgefi evrusvæðið. „Vandamálið er að Grikkir lifðu í langan tíma umfram það sem fjárhagur þeirra gaf tilefni til. Enginn vill afhenda Grikkjum fjármagn án ábyrgðar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×