Handbolti

Strákarnir hans Patreks töpuðu síðasta leiknum sínum fyrir HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. Vísir/Valli
Austurríska landsliðið tapaði með tveimur mörkum á móti Frakklandi í kvöld, 30-28, í síðasta æfingaleik sínum fyrir heimsmeistaramótið í Katar sem hefst í lok vikunnar.

Frakkar, sem eru með Íslandi í riðli á HM, komust í 5-0 í upphafi leiks en fyrir leikinn var mínútuþögn vegna fórnarlamda hryðjuverkaárásanna í París í síðustu viku.

Patrekur tók leikhlé í stöðunni 5-0 og austurríska liðið náði að minnka muninn í þrjú mörk fyrir hálfleik, 15-12.

Robert Weber, sem er bara með íslenska þjálfara (Geir Sveinsson þjálfar hann hjá SC Magdeburg) var markahæstur hjá austurríska liðinu með tíu mörk. Guillaume Joli skoraði átta mörk fyrir Frakka.

Nikola Marinovic varð mjög vel í austurríska markinu og tók meðal annars tvö vítaskot frá frönsku leikmönnunum. Á endanum munaði aðeins tveimur mörkum á liðunum.

Patrekur og strákarnir hans fljúga síðan frá París til Katar á morgun en fyrsti leikur liðsins er á móti Króatíu á föstudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×