Handbolti

Aron: Við munum skjóta Anderson í kaf

Arnar Björnsson í Katar skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Vísir/Eva Björk
Það kom berlega í ljós hve Aron Pálmarsson er mikilvægur hjá íslenska handboltalandsliðinu í leiknum gegn Dönum á dögunum.  

Aron segist vera í góðu standi og laus við meiðsli sem hafa verið að plaga hann að undanförnu.  Ef leikirnir við Dani og Slóvena eru undanskildir hefur Aron ekki spilað með landsliðinu í undanförnum leikjum vegna meiðsla.

 

„Áður en kom að leikjunum um daginn hafði ég ekki spilað með liðinu í 8-9 mánuði.  Það er alltaf allt öðru vísi að spila með landsliðinu en félagsliði.  Þetta er í annað sinn sem ég spila í Katar en mótið núna er miklu stærra og umgjörðin er frábær.  Ég hef aldrei verið á jafnflottu hóteli og hér“.

Strákarnir eru á Intercontinental hótelinu og það væsir ekki um þá þar. Aron er spenntur fyrir fyrsta leiknum á morgun.

„Svíar eru með sterkt lið, þeir eru stórir og sterkir og með frábæra vörn.  Sóknarleikur okkar hefur verið góður að undanförnu og við höfum nýtt tímann vel að undanförnu til að slípa leik okkar og við getum gert góða hluti hér í Katar“, segir stórskyttan og Aron er ánægður með að vera kominn í landsliðið á nýjan leik.  

„Ég er þakklátur  fyrir að vera í landsliðinu og það er gaman að koma í hópinn á nýjan leik“.  

Þegar hann er spurður að því hvort sé skemmtilegra að skora eða að gefa stoðsendingar, stendur ekki á svari:  

„Það er skemmtilegra að gefa stoðsendingar en ef ég þarf að skora þá geri ég það“.  

Aron þarf á morgun að eiga við Matthias Andersson stemningskarlinn í marki sænska liðsins.  Veit hann hvar á að skjóta á þann sænska?  

„Það hefur ekki litið þannig út í leikjum mínum með Kiel gegn Flensburg á morgun skjótum við Andersson í kaf“, segir brosandi Aron Pálmarsson. Það má sjá allt viðtal Arnars Björnssonar við Aron hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×