Handbolti

Kristján Arason: Guðjón Valur er besti hraðaupphlaupsmaður allra tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson og Kristján Arason.
Guðjón Valur Sigurðsson og Kristján Arason. Vísir/Stefán
Kristján Arason, einn af þremur sem hafa skorað yfir þúsund mörk fyrir íslenska handboltalandsliðið, segir Ísland vera með fleiri sigurvegara í sínu liði heldur en Svíþjóð.

Þjóðirnar mætast á morgun á HM í handbolta í Katar. Kristján verður einn af sérfræðingum Stöðvar 2 sport í keppninni og hann telur að Svíagrýlan sé ekki lengur til staðar.

Kristján var í viðtali hjá Valtý Birni Valtýssyni í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

„Ég held að Svíagrýlan sé nú farin en Svíarnir eru góðir og hafa alltaf verið góðir. Svíarnir hafa átt í erfiðleikum síðustu ár en þeir fóru svolítið létt með okkur út í Svíþjóð um daginn þó að það sé lítið að marka þann leik því við vorum svolítið að hvíla okkar menn. Þetta verður erfiður leikur," sagði Kristján Arason.

Svíum er spáð inn á topp átta en íslenska liðinu bara tólfta sæti. Hvað segir Kristján um þær spár?

„Ég held að það sé helmingsmögulegar á sigri. Handboltinn er þannig í dag að ef þú stendur lengur í uppsettri vörn þá ertu að vinna leikina. Þetta gengur rosalega mikið út á það að spila góðan varnarleik og keyra hraðaupphlaup. Ef okkur tekst að ljúka sóknunum og komast aftur í vörn þá tel ég að við eigum möguleika," sagði Kristján.

„Það er mjög erfitt að spila á móti Svíum ef að þeir spila með sína góðu 6:0 vörn og sína frábæru markmenn. Þeir eru eins og við með góð hraðaupphlaup en ég vil samt meina að okkar hraðaupphlaup séu enn öflugri með Guðjón Val sem er að mínu mati besti hraðaupphlaupsmaður allra tíma," sagði Kristján.

Það er hægt að sjá allt viðtal Valtýs við Kristján Arason hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×