Fastir pennar

Skerðum námið

Pawel Bartoszek skrifar
Í umræðu um styttingu framhaldsskólans hafa andstæðingar þeirrar hugmyndar stundum kallað hana „skerðingu náms til stúdentsprófs“. Það er kannski ákveðinn áróðursfnykur af þessu orðalagi en auðvitað er þetta samt rétt. Vonandi er það rétt! Hvað segði það okkur um framhaldsskólann nú ef hægt væri að skera hann niður um eitt ár þess að nokkuð myndi tapast?

Nei, vissulega getur stytting þýtt að nemendur sitji á heildina litið í færri tímum, lesi færri bækur, hlusti á færri fyrirlestra, taki niður færri glósur, skrifi færri ritgerðir og reikni færri dæmi. Ef við höfum trú á að þessir hlutir skipti máli þá felur það í sér að við höldum að nemendur muni koma verr undirbúnir í háskóla ef við styttum framhaldsskólann (eða grunnskólann) um eitt ár. En það er augljóslega ekki rétta nálgunin. Það verður að skoða menntakerfið í heild sinni.

Sumir vilja að börn fari í skóla fimm ára. Hvernig væri nú ef þær hugmyndir væru skotnar niður á þeim forsendum að verið væri að „rýra gildi leikskólanámsins“? Væri það heppileg nálgun á viðfangsefnið? Auðvitað ekki. Heildarleið nemandans gegnum skólakerfið hlýtur að vera það sem skiptir máli.

Slökum á kröfum

Framhaldskóli er, fyrir flesta, áfangi á leið til frekari menntunar. Það verður því að mæla árangur hans í því ljósi. Spyrjum okkur: Hve vel stendur framhaldsskólastigið þegar kemur að því að taka við grunnskólabörnum og breyta þeim í stúdenta?

Í tveggja ára gamalli skýrslu menntamálaráðuneytisins kemur fram að einungis 44% íslenskra menntaskólanema ljúka námi á tilskildum tíma. Annars staðar á Norðurlöndunum er hlutfallið yfir 70%. Íslensku tölurnar verða að fara að hækka. En nú spyr einhver: „Er þetta ekki röng nálgun? Erum við ekki að rýra námið og minnka kröfur til að fleiri komist í gegn?“ Og það er nákvæmlega það sem við verðum að gera. Við verðum að rýra námið og skerða kröfur.

Nám til stúdentsprófs verður að vera jafninnihaldslítið og í Danmörku. Kröfurnar verða að vera jafnlitlar og í Finnlandi. Þessar þjóðir eru reyndar í efstu tveimur sætum þegar kemur að svokallaðri menntunarvísitölu Sameinuðu þjóðanna. Við verðum að vera jafnmetnaðarlaus og þær þegar kemur að inntaki stúdentsprófs.

Finnskir nemendur eru í grunnskóla til 16 ára aldurs. Þeir fara síðan í þrjú ár í framhaldsskóla og hefja að jafnaði háskólanám við nítján ára aldur. Danskir nemendur eru í grunnskóla til 16 ára aldurs og fara svo í framhaldskóla. Þeir útskrifast úr framhaldsskóla 19 ára. Sama kerfi er við lýði í Noregi og Svíþjóð.

Eins og aðrir hafa gert

Alls staðar í þessum löndum hafa skólakerfi tekið breytingum. Ég las það á vef danskrar alfræðiorðabókar að árið 1903 hafi latínuskólunum þar í landi verið breytt í fjögurra ára menntaskóla þar sem fyrsta árið var gert að almennri undirbúningsbraut en svo tók við þriggja ára nám á þremur námsbrautum: nýmálabraut, fornmálabraut og stærðfræði- og náttúruvísindabraut.

Einhvern veginn líktist þetta danska fyrirkomulag undarlega mikið námsframboði þess menntaskóla sem ég útskrifaðist sjálfur úr, tæpum hundrað árum síðar.

Einhvers staðar á leiðinni hafa Danir, og aðrar Norðurlandaþjóðir, hins vegar ákveðið á skerða nám til stúdentsprófs. Sé litið til þeirra fordæma gæti hugsanlega verið skynsamlegt að fela þær breytingar í móðu ólíkra námsbrauta með valkvæðum hraðbrautum áður en kerfið er samrýmt að nýju með þeim afleiðingum að allir útskrifast ári fyrr. Þegar ég segi „skynsamlegt“ á ég við pólitískt skynsamlegt, því það er ekkert raunverulegt vit í því að búa til slíkan hrærigraut einungis til að særa enga menntastofnum og móðga enga stétt.

Mér heyrist margir vera á því að stytting heildarnáms til stúdentsprófs sé skynsöm en að framhaldskólinn sé ekki rétti staðurinn heldur ætti að stytta grunnskóla frekar. Sumir rökstyðja þetta með því að segja að þeim hafi leiðst í grunnskóla en ekki í framhaldsskóla. Það gefur kannski til kynna að grunnskólinn geti stundum kreist meira úr sumu fólki. En við skulum ekki gefa okkur að það sé ekki hægt.

Það má heldur ekki gleyma því að allar hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa valið að fara þessa leið, að stytta framhaldsskólann í þrjú ár. Fæstir þeirra sem vilja efla menntakerfið í þessum löndum leggja til að aukafjármagn til menntamála verði notað til að lengja framhaldsskólann að nýju. Menn virðast sáttir við að hafa námið þrjú ár. Menn virðast sáttir við að hafa námið „varanlega skert“.






×