Lífið

Loksins hægt að kaupa Hyl

Guðrún við skrifborðið sitt Hyl, sem nú er fáanlegt í Epal.
Guðrún við skrifborðið sitt Hyl, sem nú er fáanlegt í Epal. Vísir/GVA
Guðrún Valdimarsdóttir vöruhönnuður sýndi skrifborðið sitt Hyl á Hönnunarmars í vor og vakti mikla athygli. Fyrirspurnum um hvar og hvenær borðið verði fáanlegt hefur ekki linnt síðan þá.

„Ég ákvað því bara að láta framleiða það og nú get ég glatt alla með því að það er komið í sölu í Epal,“ segir Guðrún.

Hylur er framleiddur á Íslandi og er út mattlakkaðri hnotu og hvít-plasthúðuðum krossviði. „Þeir í GKS framleiða það fyrir mig, en þeir hafa hjálpað mér rosalega mikið.“

Hönnun borðsins einkennist af sterkum og einföldum línum, en aðalatriðið er hólf aftast á borðplötunni sem felur allar snúrur og hleðslutæki. „Ég hef eitt langt fjöltengi í hólfinu og þá er bara ein snúra frá borðinu, það er snyrtilegra en snúruflóð á gólfinu,“ segir hún.

Fram undan er vinna við að stækka línuna og fékk hún styrk frá Hönnunarsjóði fyrir það verkefni, sem verður svo sýnt á Hönnunarmars 2015.

„Efnið verður svipað, en ég ætla að gera skrifstofulínu með skúffueiningu og skjalaskáp, en húsgögnin henta líka inn á heimili, enda margir með skrifstofur þar.“ Í september á næsta ári er stefnan svo sett á 100% hönnunarsýninguna í London, með Hyl og nýju línuna. „Það opnar vonandi einhver tækifæri fyrir mig erlendis,“ segir Guðrún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×