Fastir pennar

Boðskapur friðar

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Friðarsúlan í Viðey verður tendruð næstkomandi fimmtudag á fæðingardegi bítilsins og friðarsinnans Johns Lennon.

Friðarsúlan var eins og flestir muna reist í Viðey árið 2007 og er í raun útilistaverk unnið af Yoko Ono til minningar um eiginmann hennar heitinn. Súlan er tákn fyrir baráttu hjónanna fyrir heimsfriði og lýsir upp kvöldhimininn frá 9. október, fæðingardegi Lennon, ár hvert til og með 8. desember en þann dag var Lennon myrtur árið 1980. Að auki er Friðarsúlan tendruð nokkra aðra valda daga, á gamlárskvöld, í kringum vetrarsólstöður og á sérstökum hátíðardögum. Þá var hún tendruð sérstaklega í ágúst síðastliðnum til að minnast fórnarlamba átakanna á Gasa.

„Ljós er það sem heimurinn þarfnast. Við búum öll í skugga ótta og ringulreiðar í hinum mengaða heimi. Þetta ljós á Íslandi verður aldrei slökkt, það er eilífðargeislinn sem við sendum út til heimsins og geimsins til að gefa von og sannfæringu um að draumar okkar geti ræst,“ sagði Yoko Ono þegar ákveðið var að reisa súluna.

Friðarsúlan kostar Reykjavíkurborg um sex milljónir króna á ári. Þetta kemur fram í svari menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkur við fyrirspurn Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina í borgarráði. Sveinbjörg lagði fram fyrirspurnina í kjölfar þess að hún gagnrýndi að Jón Gnarr tæki á móti sex milljóna króna styrk úr friðarsjóði Yoko Ono. Hún taldi það skjóta skökku við að fyrrverandi borgarstjóri skuli þiggja styrk úr friðarsjóði Ono í ljósi þess að Reykjavíkurborg greiði fyrir rekstur súlunnar. „Ég hefði allavega ekki tekið við þessum styrk,“ sagði Sveinbjörg við fréttastofu RÚV.

Reyndar tekur Jón Gnarr ekki persónulega á móti styrknum, eins og síðar hefur komið fram, heldur velur hann gott málefni sem friðarsjóðurinn styrkir síðan um þessa fjárhæð. Meðal fyrri styrkþega má nefna tónlistarkonuna Lady Gaga sem styrkti samtök sem berjast gegn einelti.

Friðarsúlan hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem eitt af kennileitum Reykjavíkurborgar. Hún leggur sitt af mörkum við að gera Reykjavík að einni af höfuðborgum friðar, mannréttinda og gleði sem er góður boðskapur og sérstaða sem við ættum að vera stolt af. En framlag og boðskapur Jóns Gnarrs í þá veru er eitt af því sem mun gera borgarstjóratíð hans ódauðlega. Í því samhengi verður sex milljóna árlegur kostaður að teljast harla léttvægur.

Það er hlutverk minnihlutans í borgarstjórn að veita meirihlutanum nauðsynlegt aðhald, sérstaklega varðandi meðferð útsvars borgarbúa. Að því leyti eru spurningar borgarfulltrúans sjálfsagðar. Að auki hefur minnihlutanum í borgarstjórn undanfarið, hvaða flokkar sem hann skipa, verið legið á hálsi fyrir að standa sig ekki í stjórnarandstöðu. Það er fínt til þess að vita að einhver ætlar að vera á vaktinni í andstöðunni næstu misseri.

Engu að síður vaknar upp mikilvæg spurning. Á hvaða vegferð er viðkomandi borgarfulltrúi? Þetta er annað málið sem hann setur á oddinn – áður hlaut hann verðskuldaða gagnrýni fyrir fordóma gegn múslimum og andstöðu við byggingu mosku hér á landi. Nú kemur hann sér í fjölmiðla fyrir að gera friðarsúlu og friðarstyrkveitingar til góðra málefna hennar tortryggilegar. Hvað kemur eiginlega næst?






×