Viðskipti innlent

Takmarka neikvæð áhrif gjaldeyrishafta

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Frosti Ólafsson, Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
Frosti Ólafsson, Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
Viðskiptaráð Íslands hefur sent fjármálaráðherra ábendingu um nauðsynlegar úrbætur á stjórnsýsluháttum Seðlabanka Íslands.

Vegna þess skaða sem af gjaldeyrishöftum hlýst sé nauðsynlegt að tryggja að ferlið við veitingu undanþága frá höftunum sé skilvirkt og gegnsætt.

Viðskiptaráð segir að algengasta vandamálið sem upp komi sé að umsóknum sé svarað seint og leiðbeiningar skorti. Dæmi sé um að afgreiðsla hafi tekið um níu mánuði án þess að upplýst hafi verið um ástæður tafa eða hvenær niðurstöðu væri að vænta. Að auki hafa komið upp mál þar sem svör hafi ekki fengist yfirhöfuð þremur árum eftir að umsókn var lögð fram.

Þá ríki ógagnsæi um ákvarðanatöku gjaldeyriseftirlitsins þar sem ákvarðanir þess eru ekki birtar auk þess sem forsvarsmenn fyrirtækja hafa lýst yfir áhyggjum varðandi jafnræði á milli umsækjenda.

Ljóst sé að stjórnsýsluhættir bankans þarfnist endurskoðunar og telur Viðskiptaráð tilefni til að umboðsmaður Alþingis beini tilmælum til Seðlabankans um að bæta framkvæmd sína svo að tryggt sé að hún samræmist stjórnsýslulögum, auk þess sem nauðsynlegt sé fyrir ráðuneytið að bæta úr fyrrgreindum atriðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×