Fastir pennar

Stærsti skaðinn

Þorsteinn Pálsson skrifar
Fjármálaráðherra birti í vikunni greinargerð um framgang stríðsins við fjármagnshöftin. Hún segir það helst að tíðindalítið er af þeim vígstöðvum. En hitt er spauglaust íhugunarefni að í greinargerðinni er staðfest að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvað í nóvember á síðasta ári að hætta þátttöku í starfshópi um losun fjármagnshafta.

Í aðildarviðræðunum féllst sambandið á að fela hópi sérfræðinga að kanna hvernig losa mætti um fjármagnshöftin. Seðlabanki Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áttu einnig aðild að þessari vinnu en forystan var á hendi Íslands.

Engar skuldbindingar voru gefnar fyrirfram um aðkomu þessara aðila að lausn gjaldeyrishaftaklípunnar. En hitt gat engum dulist að með því að fallast á að skoða málið með þessum hætti voru framkvæmdastjórnin, evrópski seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að viðurkenna þá sérstöðu Íslands sem nú er Þrándur í Götu frjálsra viðskipta við umheiminn og fjármálastöðugleika.

Fyllsta ástæða er til að ætla að þetta þríeyki hafi gert sér grein fyrir að það kynni að þurfa að koma að lausn þessa vanda ef Ísland tæki að viðræðum loknum ákvörðun um inngöngu. Alltént var augljóst að aðkoma þess væri ekki útilokuð færi svo. Starfshópurinn var því afar mikilvægur.

Þegar hann er lagður niður er að sama skapi ljóst að kostir Íslands þrengjast til muna. Þetta er sennilega einn stærsti skaðinn sem hlotist hefur af Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar að svo komnu máli. Menn axla mikla ábyrgð þegar þeir láta þröngsýni í utanríkismálum loka slíkum leiðum.

Engin lausn í sjónmáli

Í þessu falli getur enginn skákað í skjóli landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Hann samþykkti nefnilega mjög skýra ályktun um að óvíst væri að krónan dygði til frambúðar og kanna yrði aðra kosti með gjaldmiðil.

Eigi að síður hefur utanríkisráðherra haldið þannig á Evrópumálunum að búið er að leysa upp alþjóðlegan starfshóp sem hafði þetta brýnasta úrlausnarefni íslenskrar hagstjórnar til skoðunar. Með því var gyrt fyrir raunhæfustu leiðina til að sjá aðra möguleika í gjaldmiðilsmálum. Því verður trauðla trúað að það hafi verið gert með glöðu geði þeirra sem kjörnir voru til að framfylgja landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins.

Greinargerð fjármálaráðherra staðfestir það sem lengi hefur verið vitað að engin skjót lausn er í sjónmál á kreppu haftanna.

Annars vegar dregur greinargerðin upp skýra mynd af þeim skuldbindingum sem við blasa um greiðslur opinberra aðila og einkaaðila í erlendum gjaldeyri á næstu árum. Hún sýnir að fjármálastöðugleiki án einhvers konar hafta er útilokaður, að minnsta kosti út þennan áratug. Draumar um annað verða að bíða þess að komið verði fram á þriðja tug aldarinnar.

Hins vegar er grein gerð fyrir þeim haftareglum sem taka eiga við þegar losað verður um núverandi reglur. Haftaúrræðunum verður fjölgað og þau fá ný nöfn. Þetta þarf ekki að þýða að metnaðarleysi hafi leyst háleit kosningamarkmið af hólmi. Þessi kaldi veruleiki hefur alltaf verið ljós ef þeim leiðum yrði hafnað sem nú er verið að eyðileggja.

Aflétta á leynd

Þær fimm nýju tegundir hafta, hraðahindrana og varúðarreglna, sem greinargerðin skilgreinir, eru í samræmi við það sem Seðlabankinn nefndi í tíð vinstri stjórnarinnar: 1) Nýjar reglur um laust fé og gjaldeyrisjöfnuð. 2) Takmörkun á söfnun innlána erlendis. 3) Bann við gjaldeyrislánum. 4) Skattur á fjármagnsflutninga. 5) Áframhaldandi bein höft á lífeyrissjóðina.

Reglum af þessu tagi má vitaskuld beita með mismiklum þunga. Þær geta eftir atvikum leitt til minni takmarkana en nú eru en líka meiri. Aðalatriðið er að króna án allra hafta er handan við þá vídd sem augað eygir.

Núverandi haftareglur samrýmast heimildum í samningnum um evrópska efnahagssvæðið um tímabundnar neyðarráðstafanir. Þegar nýju reglurnar hafa verið lögfestar verður komin varanleg skipan þessara mála sem ekki verður séð að samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til frjálsra fjármagnsflutninga á svæðinu þó að þær kunni að einhverju marki að gera það.

Ætla verður að utanríkisráðherra hafi þegar átt ítarlegar viðræður við Evrópusambandið, Noreg og Liechtenstein um þessa stöðu og hvernig hann telur að laga megi hana að reglum innri markaðarins. Engin rök eru fyrir því að halda þeim tillögum leyndum. Hafi slíkar viðræður aftur á móti ekki átt sér stað væri það óafsakanlegt kæruleysi.

Áður en tillaga um slit á aðildarviðræðunum verður afgreidd úr þingnefnd hlýtur utanríkisráðherra að birta þær hugmyndir sem hann hefur til lausnar á þessum vanda. En á meðan leynd hvílir yfir þeim úrræðum er framtíð Íslands á evrópska efnahagssvæðinu í uppnámi og stjórnarstefnan spurningamerki.






×