Körfubolti

KR-ingar sterkari en Keflvíkingar í þremur stöðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij er betri en Arnar Freyr Jónsson að mati þjálfaranna þriggja.
Pavel Ermolinskij er betri en Arnar Freyr Jónsson að mati þjálfaranna þriggja. Vísir/Daníel
Þeir gerast varla stærri leikirnir í deildarkeppni Dominos-deildarinnar en leikur toppliða KR og Keflavíkur í DHL-höllinni í kvöld.

Liðin eru jöfn að stigum á toppnum og hafa aðeins tapað einum leik af sautján. Þetta er án vafa óopinber úrslitaleikur um deildarmeistaratitilinn.

KR-ingar unnu ellefu stiga sigur í fyrri leik liðanna í Keflavík og Keflavíkurliðið hefur síðan unnið tíu deildarleiki í röð. KR-ingar töpuðu fyrsta leik ársins 2014 en hafa síðan unnið fimm leiki í röð.

Þeir tefla nú fram nýjum Kana frá því í fyrri leiknum en Demond Watt Jr. hjálpaði liðinu að vinna góðan sigur í Njarðvík á dögunum.

Fréttablaðið fékk þá Inga Þór Steinþórsson (þjálfara Snæfells), Benedikt Guðmundsson (þjálfara Þórs Þorl.) og Ívar Ásgrímsson (þjálfara Hauka) til að meta hvort liðið væri með betri menn í leikstöðunum fimm og hvort liðið sé með betri bekk.

Samkvæmt því ættu KR-ingar að vinna leikinn í kvöld en lærisveinar Andy Johnston hafa nú endurheimt stórskyttuna Magnús Þór Gunnarsson frá því í fyrri leiknum en Magnús missti af þeim leik vegna meiðsla.

Þar ættu Keflvíkingar að fá einhver stig af bekknum en Keflavík fékk 18 færri stig af bekknum en KR í fyrri leik liðanna (5-23).

Það má í raun segja að í kvöld sé fyrsti í úrslitakeppni fyrir lið KR og Keflavíkur enda gæti heimavallarréttur í lokaúrslitunum ráðið miklu fyrir útkomuna í vor.

Leikurinn hefst klukkan 19.15 og er í beinni á Stöð 2 Sport.

Hér má sjá tölfræði byrjunarliðsmanna KR og Keflavíkur og hvar þjálfurunum þremur finnst liðin sterkari.Grafík/Fréttablaðið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×