Handbolti

Líklega stærsti leikur minn hingað til

Henry Birgir Gunnarsson í Herning skrifar
Bjarki Már Gunnarsson hefur komið af miklum krafti inn í íslenska landsliðið á EM í Danmörku. Miðað við frammistöðu hans á mótinu er ljóst að þar er kominn framtíðarleiðtogi varnarinnar næstu árin.

Bjarki Már er 25 ára gamall og leikur með þýska félaginu Aue. Hann var áður á mála hjá HK. Þetta er hans fyrsta mót og frammistaðan lofar heldur betur góðu fyrir framhaldið.

„Þetta hefur gengið ágætlega og maður vill alltaf gera betur. Það er nægt rými til þess að bæta sig. Ég ætla mér að gera það,“ sagði Bjarki hógvær. „Ég ætla að halda mér í landsliðinu og mun gera allt til þess að svo verði.“

Bjarki er búinn að sjá stemninguna á leikjum Dana og hlakkar til að spila í þessari stemningu.

„Það er svakaleg stemning hérna og ég hlakka til að spila. Maður á njóta þess, maður fær ekki mörg svona tækifæri og þau verður að nýta. Ég hef ekki spáð í það en þetta er líklega stærsti leikur sem ég hef tekið þátt í. Vonandi verða þeir stærri samt síðar,“ sagði Bjarki og brosti.

„Danir eru með rosalið og það verður gaman að fá að taka á þessum stóru nöfnum. Fá að sjá hvar maður stendur. Við verðum að spila góða vörn og mæta þessum skyttum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×