Handbolti

Ég var eins og Peyton Manning

Henry Birgir Gunnarsson í Herning skrifar
Ásgeir Örn skoraði sex mörk fyrir Ísland í gær.
Ásgeir Örn skoraði sex mörk fyrir Ísland í gær. fréttablaðið/daníel
„Ég fann mig vel og þá lætur maður vaða. Það var allt inni hjá mér í dag,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson en hann átti stórkostlegan leik gegn Makedónum í gær. Þegar allt var í rugli í fyrri hálfleik tóku hann og Björgvin Páll leikinn yfir.

„Þegar maður skorar þá opnast allt fyrir manni. Sjálfstraustið kemur og allt verður náttúrulegt. Það hægist á leiknum og allir verða opnari en áður. Ég var í „zone-inu“ eins og Peyton Manning gegn New England,“ sagði Ásgeir en hann er mikill áhugamaður um NFL-deildina og missti ekki af leiknum á sunnudag.

„Það gekk ekkert í byrjun hjá okkur. Svo náðum við því fljótt aftur. Þeir eru góðir í að rífa hraðann niður og drepa leikinn. Þeir spila alveg hundleiðinlega og það er því gott að hafa klárað leikinn. Svo ákváðum við að hafa þetta spennandi í lokin.“

Ásgeir hefur spilað frábærlega á mótinu og það kemur mörgum á óvart enda hefur hann lítið spilað með félagsliði sínu, PSG.

„Ég er sáttur við minn þátt og þetta hefur verið gaman. Það var búið að tala mikið um að ég væri ekkert að spila sem er alveg rétt. Mér fannst ég þurfa að sýna mig og sanna og þar á meðal fyrir sjálfum mér. Ég undirbjó mig mjög vel fyrir mótið og svo hefur þetta gengið mjög vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×