Handbolti

Björgvin Páll: Erum tilbúnir að leggja mikið á okkur fyrir þjóðina

Henry Birgir Gunnarsson í Álaborg skrifar
Björgvin Páll Gústavsson var í ham gegn heimsmeisturunum á EM í handbolta í gær.
Björgvin Páll Gústavsson var í ham gegn heimsmeisturunum á EM í handbolta í gær. Vísir/Daníel
Björgvin Páll Gústavsson var svolítinn tíma í gang í gær í leiknum á móti heimsmeisturum Spánverja á EM í handbolta en fór síðan algjörlega á kostum og varði nítján skot. Mörg hver glæsilega.



„Vítin sem ég varði í upphafi komu mér í gang. Það var svekkjandi að tapa þessum leik. Við vorum að spila gegn gæðaliði. Þeir hafa spilað svona leiki margoft og kunna að klára svona leik. Við hefðum samt getað gert betur,“ sagði keppnismaðurinn Björgvin Páll svekktur í leikslok.

„Það er erfitt að kyngja þessu. Við erum með gott lið og frammistaða okkar flott. Mannskapurinn er laskaður en við erum að berjast um hvern einasta bolta. Menn eru á fullu gasi. Ég verð að hrósa strákunum fyrir framan mig en þeir eru frábærir. Það sást á hverjum manni að hann er búinn á því og skilur allt eftir á vellinum. Við erum búnir á því bæði andlega og líkamlega. Við verðum að rífa okkur strax upp enda nóg eftir af mótinu.“



Björgvin er ánægður með frammistöðu liðsins í riðlakeppninni. „Við erum að spila vel en þurfum að fækka slæmu mínútunum. Þetta er gott lið með menn sem eru tilbúnir að leggja mikið á sig fyrir þjóðina. Menn eru að spila með hjartanu og það er hægt að komast langt á því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×