Handbolti

Aron Pálmars: Ég fer nokkrum sinnum á dag til sjúkraþjálfaranna

Henry Birgir Gunnarsson í Álaborg skrifar
Aron Pálmarsson tók því frekar rólega á æfingu landsliðsins í gær og var aðallega í meðferð hjá sjúkraþjálfara. Hann er bæði slæmur í hné og ökkla. Það er ekkert sérstaklega gott þegar aðeins einn hvíldardagur er á milli leikja á EM.

„Standið á mér er samt fínt. Þetta hélt alveg en ég er þreyttur í löppinni þar sem hún er ekki nógu sterk. Maður hefur oft bölvað því að þurfa að æfa mikið en núna er alveg óþolandi að geta ekki æft. Þetta er bara staðan, því miður, og það lá alltaf fyrir að ég gæti ekki gert of mikið hérna úti,“ sagði Aron eftir æfingu liðsins í gær sem var létt. Aðeins þeir sem lítið spiluðu á þriðjudag tóku aðeins á því.

Menn velta því fyrir sér miðað við ástand Arons hversu mikið hann geti beitt sér í leiknum gegn Spáni í kvöld.

„Það kemur í ljós á leikdegi. Hver dagur telur sem og hver meðhöndlun. Ég fer nokkrum sinnum á dag til sjúkraþjálfaranna og er að japla á einhverjum Voltaren-töflum. Það er allt reynt og allt gert. Svo korteri fyrir leik getur maður sagt til um hvernig staðan er.“

Spánverjar eru heimsmeistarar og með eitt besta lið heims. Þeir sýndu þó veikleikamerki gegn Noregi. „Það eru klárlega veikir hlekkir og við ætlum að finna þá. Þeir eru reyndar fáir en við þurfum að notfæra okkur þá. Þetta verður hrikalega erfiður leikur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×