Handbolti

Guðjón Valur kom vel út úr prófinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur hefur verið með á öllum Evrópumótum íslenska liðsins.
Guðjón Valur hefur verið með á öllum Evrópumótum íslenska liðsins. Mynd/Daníel
Aron Kristjánsson valdi í gær 17 manna hóp fyrir Evrópumótið í Danmörku og eru bæði Guðjón Valur Sigurðsson og Arnór Atlason með. Mikil óvissa var um þátttöku þeirra og þá sérstaklega Guðjóns Vals sem hefur ekki æft með liðinu vegna meiðsla á kálfa.

„Arnór er búinn að vera mjög sprækur á þessum æfingum og virkar alveg klár. Gaui (Guðjón Valur) kom vel út úr þessu prófi í morgun sem var lagt fyrir hann með vissu álagi. Hann á raunhæfa möguleika á því að spila strax á sunnudaginn og ef ekki á sunnudaginn þá á þriðjudaginn,“ segir Aron.

„Ég held að það hafi aldrei verið jafnerfitt að setja saman hópinn. Þetta er búið að vera mikið púsluspil og það hefur verið mikil óvissa undanfarna daga. Það er gott að við erum komnir með einhverja niðurstöðu í málið og okkur líst bara mjög vel á þetta,“ sagði Aron. Hann má bara tilkynna inn 16 leikmenn en fer með 17 menn út.

„Við eigum þrjár skiptingar á meðan á mótinu stendur og við megum nýta þær hvenær sem er. Við erum því miður með nokkra leikmenn tæpa og þá líka í skyttustöðunum. Við ákváðum því að taka aukamann með og ef eitthvað gerist snöggt þá erum við með mann á staðnum,“ sagði Aron.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×