Innlent

Þurfti að leita til sálfræðings eftir niðurlægjandi ummæli Bjössa í World Class

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Íris segist hafa þurft að leita til sálfræðings eftir ummæli Björns.
Íris segist hafa þurft að leita til sálfræðings eftir ummæli Björns.
„Ég er nýfarin að geta talað um þetta og var nokkuð lengi hjá sálfræðingi eftir þetta,“ segir Íris Hildur Birgisdóttir um ástæðu þess að hún hætti í starfi sínu hjá líkamsræktarstöðinni World Class. 

Í samtali við Vísi segir Íris frá því að hún hafi sagt upp eftir að Björn Leifsson, eigandi World Class, setti út á vaxtarlag hennar. Atvikið átti sér stað í október fyrir rúmum tveimur árum, en Íris hefur ekki viljað tjá sig um málið fyrr en nú. Hún hafði verið starfsmaður World Class í sex ár áður en hún sagði upp.

Íris rifjar samtalið upp, sem að hennar sögn var á þessa leið:

„Ég var að afgreiða í baðstofunni og Björn kemur þarna ásamt vinum sínum. Þegar ég er að afgreiða hann spyr hann mig hvað sé málið og hvort ég sé ólétt. Ég neita því. Þá spyr hann aftur: „Af hverju ertu búin að fitna svona mikið?“ Hann var þarna með nokkrum vinum sínum og mér þótti þetta ótrúlega óþægileg spurning og fékk kökk í hálsinn.,“ útskýrir Íris og heldur áfram:

„Ég vissi ekki hvernig ég átti að svara þessu en sagðist vera nýkomin í samband, kannski væri það ástæðan. Þá segir hann mér að það sé óvirðing að fitna í sambandi og að ég gæti ekki boðið kærastanum mínum upp á það.“

Íris segist hafa verið þarna fyrir framan samstarfskonu sína, Björn og vini hans og ekki vitað hvernig hún ætti að bregðast við. „Hann sagði svo við mig að ég yrði að fara að gera eitthvað í þessu. Að ég gæti ekki verið svona, að ég væri nú einu sinni að vinna á líkamsræktarstöð.“



Mikil pressa að vera í góðu formi

„Þessi ummæli komu mér mjög á óvart, því ég hafði aldrei átt nein teljandi samskipti við Björn á þessum sex árum sem ég vann þarna,“ segir Íris.

Hún segir að það sé mikil pressa á konum sem starfi hjá World Class að vera í góðu formi. „Svo virðist sem hann ráði bara stelpur sem eru í bikiní-formi, stelpur sem geta keppt í Ungfrú Ísland. Það skiptir miklu máli að þær líti vel út og séu í góðu formi.“

Íris segist ekki hafa heyrt hann tala svona við neinar aðrar starfskonur líkamsræktarstöðvarinnar.

Fór heim grátandi

Íris segist hafa forðað sér inn á baðherbergi hágrátandi. Hún segist varla hafa getað staðið í fæturnar, hún brotnaði gjörsamlega niður. „Ég brotnaði algjörlega niður. Hef aldrei brotnað svona niður áður.“

Samstarfskona Írisar kom að henni og sá að hún var óvinnufær. „Hún sagði mér bara að fara heim, það væri fyrir bestu.“

Daginn eftir hringdi yfirmaður Írisar í hana. „Hún sagði mér að taka þessu ekki svona illa. Að þetta hefði verið grín. Mér fannst þetta alls ekkert fyndið og tók þessi ummæli mikið inn á mig.“ Íris bað um að fá frí frá vinnu út vikuna og gekk út frá því að það hefði verið samþykkt. En svo var ekki. Næst þegar hún átti vakt var hringt í hana og hún beðin að mæta. Íris neitaði. „Ég sagði þeim að ég gæti ekki mætt.“

Í vikunni á eftir mætti hún svo aftur til vinnu í eitt skipti og þar hitti hún Björn sem rétt fram höndina og hvíslaði: „sorry með þetta.“

Írisi þótti þessi afsökunarbeiðni aum.

Hefði gott af blautri tusku í andlitið

Íris segir eina samstarfskonu hafa látið Björn heyra það vegna ummælanna. Hún kom að Írisi grátandi inni á salerninu, eftir spurningaflóð Björns um vaxtarlag hennar. „Hún fór og talaði við hann. En hann sagði víst við hana að sumir hefðu bara gott af blautri tusku í andlitið. Hann sagði líka við hana að þetta hefði bara verið grín.“

Íris ákvað að hætta eftir þessar niðrandi athugasemdir Björns í hennar garð. Þegar hún tilkynnti um uppsögn sína var henni tjáð að hún fengi ekki uppsagnarfrestinn sinn greiddan því hún hætti fyrirvaralaust. Einnig var henni sagt að hún fengi ekki greitt fyrir þær vaktir sem hún fékk frí á í kjölfar athugasemda Björns. Íris hafði skilið það sem svo að hún fengi þær greiddar, hún segist hafa verið með öllu óvinnufær; hefði verið heima grátandi.

„Ég var mjög ósátt með að fá ekki uppsagnarfrestinn greiddan né vaktirnar og fór með það í stéttarfélagið mitt, VR. Eftir það fékk ég vaktirnar greiddar. En ég fékk ekki uppsagnarfrestinn greiddan því ég hætti með engum fyrirvara. Mér fannst það skrýtið, en lögfræðingurinn tjáði mér að ég hefði ekki sannanir fyrir því að þessi orðaskipti hefðu átt sér stað. Ég sagðist vera með vitni, en þá sagði lögfræðingurinn að Björn hefði líka vitni. Að þetta mál yrði alltaf mjög erfitt. Hann sagði mér að ég ætti ekki séns. En samkvæmt þeim hjá VR hefði ég með réttu átt að fá uppsagnafrestinn greiddan. Björn neitaði því að orðaskiptin hefðu átt sér stað þegar fulltrúi VR hafði samband við hann.“

Leitaði til sálfræðings

Íris tók ummælin mjög inn á sig og þurfti að leita til sálfræðings vegna þeirra. „Ég átti erfitt með að tala um þetta lengi á eftir. Ég brast iðulega í grát þegar ég hugsaði um þetta atvik. Þegar ég hitti fólk sem vann með mér í World Class á þessum tíma rifjaðist málið upp fyrir mér. Ég fann skömmina og vanlíðanina koma yfir mig. Þessar aðstæður voru bara hörmulegar. Hann var þarna að gera lítið úr mér fyrir framan vini sína og var hlæjandi. Einn þeirra sagði meira að segja: „Svaraðu nú fyrir þig!“ Þetta hafði mikil og slæm áhrif á mig, þessi upplifun. Eftir þetta var ég að glíma við þunglyndi og kvíða.“

Ekki náðist í Björn Leifsson við vinnslu þessarar fréttar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×