Innlent

„Hreppapólitík“ forsætisráðherra í lögreglumálum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Gunnar Þorgeirsson, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. Vísir/Magnús Hlynur
„Ég get ekki betur séð en að þetta lykti af hreppapólitík þó ég neiti að trúa því árið 2014, vinnubrögðin eru allavega mjög undarleg“, segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra undirritaði reglugerð áður en hann lét af embætti dómsmálaráðherra á fimmtudaginn um að flytja lögregluna á Höfn í Hornafirði í sitt kjördæmi, Norðausturkjördæmi, frá næstu áramótum en ekki hafa hana í Suðurkjördæmi eins og allir höfðu reiknað með.

Gunnar segir að sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi séu mjög óhressir með ráðstöfun Sigmundar Davíðs.

„Ég hef líka heyrt í öllum þingmönnum Suðurkjördæmis, þeir eru allir jafn undrandi á þessu. Við ræddum þetta ítrekað í kjördæmavikunni í haust þar sem allir þingmennirnir voru með okkur í þessu verkefni og því er þessi ráðstöfun mjög undarleg“, segir Gunnar.  Hann treystir á að Ólöf Nordal, nýr innanríkisráðherra, breyti ákvörðun Sigmundar Davíðs.

„Já, ég treysti nýjum dómsmálaráðherra til að endurskoða þessi mál, ég heyri á Hornfirðingum að þeir eru alls ekki kátir með þetta. Þeir hafa verið einhuga í samstarfinu við okkur á Suðurlandi og þess vegna finnst mér þetta algjörlega fáránlegt.“

Nánar verður rætt við Gunnar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.


Tengdar fréttir

Hornfirðingar æfir yfir lokaverki Sigmundar sem dómsmálaráðherra

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ákvað á síðasta degi sínum sem dómsmálaráðherra að lögregluembættið á Höfn skyldi vera áfram í hans eigin kjördæmi en ekki í Suðurkjördæmi. Bæjarstjórinn á Höfn trúir ekki eigin augum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×