Innlent

Gríðarleg aukning í kynferðisbrotum gegn börnum

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar

Kynferðisbrotum hefur fjölgað í öllum brotaflokkum síðustu ár. Gífurleg aukning er í kynferðisbrotum gegn börnum, en aldrei hafa fleiri leitað í Barnahús og í fyrra. Forstjóri Barnaverndarstofu segir brotin tengjast aukinni netnotkun ungra barna.

Í heild voru framin 416 kynferðisbrot á höfuðborgarsvæðinu árið 2013. Ef litið er á samanburð á milli ára voru nauðgunarbrot 66 árið 2010, 81 árið 2011, 84 árið 2012 og 114 árið 2013.

Vændismál voru 37 árið 2010, 9 ári síðar, 22 árið 2012 en 98 í fyrra. Hafa skal í huga að lögreglan réðist í sérstakt átak í vændismálum árið 2013 og skýrir það fjölgun vændismála á síðasta ári.

Mál vegna kláms eða barnakláms voru 13 árið 2010, 17 árið 2011 og 2012, og 21 árið 2013

Mikil fjölgun kynferðisbrota gegn börnum vekur athygli, en þau voru 37 árið 2010, 60 árið 2011, 64 árið 2012 og 113 í fyrra.

Bragi Guðbransson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir að um mikla raunaukningu sé að ræða, en aldrei hefur fleiri börnum verið vísað í Barnahús og í fyrra. Helmingur barnanna sem komu í rannsóknarviðtöl í Barnahúsi voru undir ellefu ára aldri. 

„Við vitum að tilkoma veraldarvefsins og margmiðlunartækja, sérstaklega farsíma, hefur sitt að segja. Landslagið hefur breyst og það eru nýjar hættur sem börnin standa frammi fyrir. Aðgengi fyrir fólk til að fremja brot af þessu tagi er auðveldara og margslungnara en var,“ segir hann.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira