Innlent

Frammistaða Íslands verst allra

Atli Ísleifsson skrifar
Ísland var með með langmesta innleiðingarhallann af öllum EES-ríkjunum 31.
Ísland var með með langmesta innleiðingarhallann af öllum EES-ríkjunum 31. Vísir/Gunnar
Ísland er enn með langverstu frammistöðu allra EES-ríkjanna varðandi innleiðingu EES-tilskipana og reglugerða.

Í nýju frammistöðumati Eftirlitsstofunar EFTA (ESA) segir að innleiðingarhalli tilskipana, sem sýni hlutfall tilskipana sem ekki hafa verið innleiddar eða ESA hefur ekki verið tilkynnt um innleiðingu á innan réttra tímamarka, hafi verið 3,1 prósent í tilviki Íslands.

Í síðasta frammistöðumati mældist hlutfallið 3,2 prósent, en stofnunin gefur út frammistöðumat tvisvar á ári. Í bæði skiptin var Ísland með langmesta innleiðingarhallann af öllum EES-ríkjunum 31, það er 28 aðildarríkjum ESB, auk Íslands, Noregs og Liechtenstein. Innleiðingarhalli Noregs mælist 1,9 prósent.

Helga Jónsdóttir, stjórnarmaður í ESA, segir að því miður birtist þau tíðindi enn og aftur að Ísland og Noregur standa sig verst allra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. „Það er til þess fallið að grafa undan því jafnræði sem innri markaðurinn byggist á. Það er óviðunandi ef löggjöf á svæðinu er ekki samstæð og ESA hlýtur að leita leiða til að tryggja að EFTA-ríkin virði skuldbindingar sínar.”

Innleiðingarhalli EFTA-ríkjanna þriggja er nú 1,9 prósent að meðaltali og er það örlítil framför frá síðasta frammistöðumati þegar innleiðingarhallinn var tvö prósent, að því er segir í fréttatilkynningu frá ESA. „Til samanburðar er innleiðingarhallinn að meðaltali 0,7% í ríkjum ESB. Aðeins fimm ESB ríki voru með innleiðingarhalla umfram 1% viðmiðið og ekkert ESB ríki var með innleiðingarhallayfir 1,5%“.

Í frammistöðumatinu kemur einnig fram hversu mörg samningsbrotamál gegn EFTA-ríkjunum eru til meðferðar hjá ESA, sem stafa af því að tilskipanir og reglugerðir eru ekki innleiddar innan tímamarka. Samningsbrotamál af þeim toga eru nú 177 talsins. „ESA hefur einnig vísað fjölda mála til EFTA-dómstólsins þar sem Ísland og Noregur hafa vanefnt að innleiða EES-gerðir í landsrétt,“ segir í fréttatilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×