Innlent

„Ég hlakka til þess dags þegar ég get hætt að lita á mér hárið sjálf“

Ingvar Haraldsson skrifar
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins tók til máls á Alþingi í gærkvöldi.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins tók til máls á Alþingi í gærkvöldi. Vísir/Daníel
Í umræðum um skuldaniðurfellingarfrumvarp ríkisstjórnarinnar á Alþingi í gærkvöld tók Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, til máls.

Hann sagðist hafa hitt þúsundir á ferðum sínum fyrir síðustu Alþingiskosningar. Það var þó saga einnar konu sem Þorsteinn vildi deila með þingheimi:

„Ég hitti ágæta konu, framhaldsskólakennara. Eiginmaðurinn var ríkisstarfsmaður í BHM (Bandalagi Háskólamanna). Þau voru búin að selja íbúð sem þau áttu og voru farin í minni íbúð. Þau voru í skilum. Börðust um á hæl og hnakka. Og Þessi ágæta kona sagði við mig: Ég hlakka til þess dags þegar ég get hætt að lita á mér hárið sjálf og get farið á hárgreiðslustofu til þess að láta gera það fyrir mig. Það var fyrir fólk eins og þessa konu og hennar mann sem að við settum fram okkar tillögur.“

Þá heyrðist kallað úr þingsal „ertu að grínast?“.

Þorsteinn hafði ekki sama húmor fyrir eigin sögu og svaraði um hæl. „Mér þykir sorglegt að heyra  fulltrúa félagshyggjuafla hlæja að þessu.“ Hann bætti svo við að þetta hefði verið húmorinn í tíð fyrrverandi stjórnar.

Myndband af ræðu Þorsteins má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×