Lífið

Nýtt matarstell frá Postulínu á HönnunarMars

MYND/GVA
Hönnunarteymið Postulína sýnir nýtt handrennt matarstell í húsnæði bókaútgáfunnar Crymogeu á Barónsstíg á HönnunarMars. Stellið kallast Jökla og dregur bæði nafn sitt og litatóna af íslenskum jöklum. Sýningin verður opnuð í kvöld klukkan 20.30.

„Við fórum upp á Sólheimajökul í undirbúningsvinnunni og skoðuðum litina í jöklinum. Þeir endurspeglast í stellinu. Undirdiskurinn er svartur eins og sandurinn í skriðjöklinum og hvítur matardiskurinn er glansandi eins og jökullinn sjálfur. Skálarnar eru í þeim bláu tónum, sem finna má inni í jökulsprungum og glösin eru hvít eins og jökullinn en með svörtum sanddoppum,“ útskýrir Ólöf Jakobína Ernudóttir vöruhönnuður, en hún skipar tvíeykið Postulínu ásamt Guðbjörgu Káradóttur leirkerasmið.

Stellið unnu þær með styrk frá Hönnunarsjóði Auroru og verður hægt að kaupa hlutina á sýningunni sem stendur fram á sunnudag. Eftir það verður hægt að panta stellið beint frá Postulínu.

Vigfús Birgisson ljósmyndari sýnir einnig ljósmyndir af íslenskum jöklum í Crymogeu.

Postulína er á Facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×