Sport

HK og Afturelding mætast í úrslitum bikarsins

Úr leik Aftureldingar og Þróttar Nes í dag.
Úr leik Aftureldingar og Þróttar Nes í dag. mynd/aðsend
Það verða HK og Afturelding sem mætast í úrslitum í kvennaflokki í bikarkeppninni í blaki en undanúrslitin fóru fram í dag. HK lagði Þrótt Reykjavík, 3-0, og Afturelding skellti Þrótti Neskaupstað, 3-1.

Fyrirfram var búist við öruggum sigri HK en Þróttur veitti þeim harða keppni framan af.

Í fyrstu hrinu voru Þróttarar mjög ákveðnir og sóttu af krafti á HK. Þróttarar höfðu yfirhöndina og leiddu hrinuna, 24-19, en þá tóku HK-stelpur við sér og sóttu stíft og fóru leikar þannig að HK vann fyrstu hrinuna 26-24.

Í annari hrinu byrjuðu Þróttarar mun betur og voru komnir í 9-2. Þá vaknaði HK til lífsins og náði smám saman yfirhöndinni og snéru hrinunni sér í vil og vann hana, 25-18.

Í þriðju hrinu var HK með yfirburði alla hrinuna og vann, 25-15, og leikinn, 3-0.

Í fyrstu hrinu í leik Afturelding og Þróttar Nes var jafnt á öllum tölum og ljóst að liðin ætluðu að gefa allt leikinn.

Aftureldingarkonur náðu að síga fram úr þegar leið á hrinuna en Þróttarar neituðu að gefast upp. Í æsispennandi hrinu náðu Þróttarar fram sigri með því að vinna 26-24.

Í annari hrinu byrjaði Afturelding af miklum krafti og komst í 9-2. Þróttarar tóku við sér en munurinn var orðin of mikill og Afturelding vann hrinuna, 25-18.

Þriðja hrina var mjög jöfn og góðar varnir hjá báðum liðum. í stöðunni 18-18 náði Afturelding að slíta sig aðeins frá Þrótti og vinna hrinuna, 25-21.

Þarna var staðan orðin 2-1 og Afturelding komin með yfirhöndina í leiknum. Fjórða hrina var æsispennandi og aldrei munaði meira en tveim stigum á liðunum. En líkt í þriðju hrinu náði Afturelding yfirhöndinni í stöðunni 18-18 og kláraði hrinuna 25-20.

Úrslitaleikurinn fer fram í Laugardalshöll á morgun klukkan 13.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×