Sport

Ágúst og Kristinn bestu vallarstjórarnir

Kristinn og Ágúst með verðlaunin sín.
Kristinn og Ágúst með verðlaunin sín. mynd/aðsend
Gras er ekki bara gras og það vita íslenskir vallarstjórar best. Samtök Íþrótta- og Golfvallastarfsmanna hafa nú annað árið í röð veitt verðlaun til vallarstjóra.

Veitt eru verðlaun til knattspyrnu- og golfvallarstjóra. Það eru dómarar og þjálfarar í efstu tveim deildum karla og efstu deild kvenna sem velja knattspyrnuvallastjóra ársins.  Besti golfvallastjórinn er valinn af afrekshópi golfsambandsins, golfkennurum og landsdómurum.

Í flokki knattspyrnuvalla sigraði Kristinn V. Jóhannsson fyrir Laugardalsvöll.  Laugardalsvöllur skartaði sínu fegursta þetta árið, þrátt fyrir oft á tíðum slæmt veðurfar.  

Mikið afrek var svo unnið þegar Laugardalsvöllur var í frábæru ástandi um miðjan nóvember þegar leikur Íslands og Króatíu fór fram.  Það voru ekki margir sem bjuggust við því að hægt væri að bjóða upp á slíkar aðstæður í Laugardalnum og því er Kristinn vel að titlinum kominn, annað árið í röð.

Í flokki golfvalla varð Ágúst Jensson fremstur á meðal jafningja fyrir Korpuvöll Golfklúbbs Reykjavíkur.  Á Korpúlfsstöðum fór fram Íslandsmót í golfi við frábærar aðstæður.  

Leikið var á nokkrum nýbyggðum holum þar sem nýlega var lokið við að stækka Korpúlfstaðavöll í 27 holur úr 18.  Var það mál manna að völlurinn væri glæsilegur í alla staði.  Ágúst náði titlinum af Golfklúbbnum Keili, en Daniel Harley hlaut þessi verðlaun á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×