Sport

Svisslendingurinn IPod endaði sigurgöngu Shaun White

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Svissneski Rússinn Iouri Podladtchikov er nýr Ólympíumeistari í hálfpípu á snjóbrettum karla eftir flotta frammistöðu í úrslitunum í kvöld.

Podladtchikov endaði þar með sigurgöngu Bandaríkjamannsins Shaun White sem komst ekki einu sinni á pall. White hafði unnið þessa grein á síðustu tveimur Ólympíuleikum.

Iouri Podladtchikov er kallaður "IPod" sem er gælunafn sem er myndað úr nafni hans. Hann rétt missti af verðlaunum fyrir fjórum árum þegar hann endaði í fjórða sætinu.

Podladtchikov fékk þriðju bestu einkunnina fyrir fyrri ferðina en sú síðasti heppnaðist fullkomlega og skilaði honum heildareinkunn upp á 94.75.

Á eftir Podladtchikov komu Japanarnir Ayumu Hirano (93.50) og Taku Hiraoka (92.25). Hinn fimmtán ára gamli Ayumu Hirano var í efsta sæti eftir fyrri ferðina en náði ekki að svara frábærri ferð IPod í þeirri síðari.

Shaun White átti mörg frábær og mjög erfið stökk en klikkaði í lendingu í báðum ferðum sem reyndist afar dýrkeypt. White endaði með einkunnina 90,25 og var því fjórum og hálfum stigum á eftir nýja Ólympíumeistaranum.

Rússar áttu ekki fulltrúa í úrslitunum en Yuri Podladchikov fæddist hinsvegar í Moskvu árið 1988 og heimamenn studdu hann vel í kvöld þrátt fyrir að hann keppi fyrir Sviss.

Það er hægt að sjá myndband frá keppninni hér fyrir ofan.

Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×