Innlent

Putin ber að ofan upp um alla veggi

Jakob Bjarnar skrifar
Pútín, ber að ofan og karlmannlegur í rússneskri náttúru.
Pútín, ber að ofan og karlmannlegur í rússneskri náttúru.
Hundruð gesta kvarta nú undan því, eftir að hafa komið sér fyrir á dýrum hótelherbergjum í Sotsíj, að þar séu allir veggir undirlagðir af myndum af Pútín forseta – berum að ofan. Hótelherbergin eru beinlínis veggfóðruð með slíkum myndum. Frá þessu greinir í fremur skondinni frásögn í The New Yorker – The Borowitz Report. En það er óábyrg fréttasíða þar sem fréttir eru skrumskældar. Sannleikurinn reynist afstæður á The Borowitz Report.

Myndirnar sýna Pútín þar sem hann flengríður ýmsum spendýrum og sleppa fá, ef nokkur, hótelherbergi sem hönnuð voru og byggð sérstaklega af tilefni Ólympíuleikanna, frá þessari skreytilist.

Klugian var brugðið þegar hann kom í hótelherbergi sitt og sá risastóra mynd af Pútín, berum að ofan á baki dýri sem virtist vera rússneskur björn.
Fréttin greinir frá því að Tracy Klugian, sem lagði land undir fót, alla leið frá Ohio ásamt konu sinni, til að vera viðstaddur Ólympíuleikana, væri hreinlega brugðið þegar hann uppgötvaði að á veggjum hótelherbergis þeirra hjóna væri að finna risastórar myndir af Pútín, berum að ofan á dýri sem virtist vera björn. „Ég ferðaðist ekki alla þessa leið til þess að láta slíkt yfir mig ganga,“ segir Klugian.

Sjálfur lætur Pútín sér hvergi bregða vegna þessara neikvæðu viðbragða og umkvartana. Hann kallar slíka hótelgesti pissudúkkur. „Þetta fólk, sem er að kvarta undan myndum á veggjum hótelherbergja sinna ætti að vera þakklátt,“ segir Pútín. „Þau hafa þá fengið hótelherbergi sem er með veggjum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×