Sport

Kotsenburg náði í fyrsta gullið | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Snjóbrettakappinn Sage Katsenburg frá Bandaríkjunum vann fyrstu gullverðlaun Vetrarólympíuleikanna í Sotsjí er hann bar sigur úr býtum í brekkufimi.

Þetta var í fyrsta sinn sem keppt er í greininni á Ólympíuleikum og sigurinn því sögulegur fyrir Kotsenburg og Bandaríkin. Halldór Helgason reyndi að komast inn á leikana í þessari grein en náði því ekki.

Kotsenburg náði bestu ferð keppninnar strax í fyrri umferð úrslitanna en hann náði þá 93,50 stigum.

Norðmaðurinn Staale Sandbech varð annar með 91,75 stig sem hann fékk fyrir seinni ferð sína. Þriðji var Mark McMorris frá Kanada með 88,75 stig en báðir þóttu sigurstranglegir í dag. Svíinn Sven Thorgen varð fjórði með 87,50 stig.

Maxence Parrot, nítján ára Kanadamaður, fór síðustu ferðina í keppninni og var mikil spenna á meðan að dómarar dæmdu ferðina sem þótti heppnast vel. Parrot vann tvöfalt á X Games í Bandaríkjunum í síðasta mánuði en náði ekki að heilla dómarana nóg að þessu sinni. Hann fékk 87,25 stig fyrir síðari ferð sína sem dugði í fimmta sætið.

Alls verða 98 gullverðlaun veitt á leikunum í Sotsjí en þess má geta að Bandaríkin á nú átta gull fyrir keppni í snjóbrettaíþróttum á Ólympíuleikum og 20 verðlaun alls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×