Handbolti

Guðjón: Við eigum að vinna þennan leik

Henry Birgir Gunnarsson í Herning skrifar
Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson hefur farið á kostum á EM í Danmörku. Hann er með hundrað prósent skotnýtingu í síðustu tveim leikjum.

"Það verða aðrir að dæma um hvort ég hafi sjaldan verið betri. Það hjálpar mér ekkert í næsta leik hvað ég gerði í síðasta leik. Ég verð að njóta þess síðar," sagði Guðjón af sinni rómuðu hógværð.

Fyrirliðinn kemst vonandi í mörg hraðaupphlaup í leiknum en það er upplegg strákanna að reyna að keyra yfir Makedónana.

"Við þurfum að koma í veg fyrir að þeir fái að spila eins og gegn Austurríki. Það var hálfgerður göngubolti. Við þurfum að keyra upp hraðann og við vitum að þeir ná ekki að halda í við okkur þar," segir Guðjón.

"Lazarov er þeirra aðalmaður þó svo hinir séu ekkert lélegir þá er lykilatriði að stöðva Lazarov og þreyta hann. Þá ættum við að geta tekið þá.

"Þeir voru fljótir að gefast upp gegn Ungverjum. Ég held að það hafi verið meiri andleg þreyta en líkamleg. Við verðum að trufla þá í leiknum svo þeir fái ekki að spila sinn hæga leik. Við eigum og viljum vinna þennan leik."

Viðtalið við Guðjón í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×