Handbolti

Guðjón Valur: Erfiðara en þetta átti að verða

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði, var ánægður með stigin tvö sem Ísland fékk í dag fyrir sigur á Makedóníu í milliriðlakeppni EM í handbolta.

Strákarnir okkar unnu tveggja marka sigur, 29-27, þrátt fyrir að hafa ekki hitt á sinn besta dag. „Við skulum taka smá Pollíönnu á þetta. Þetta voru æðisleg tvö stig og gaman að vinna. En þetta var aðeins erfiðara en þetta átti að verða,“ sagði Guðjón Valur í viðtali við Rúv eftir leikinn.

„En það kom ekkert á óvart í þeirra leik - alls ekki. Við vorum bara aðeins of lengi að mæta í vinnuna í dag. Geiri [Ásgeir Örn] mætti fyrsta korterið en við hinir einn af öðrum eftir það. Þegar við svo settumst við skrifborðið og byrjuðum að naga blýantana gekk þetta ágætlega.“

Makedónía spilaði langar sóknir og segir Guðjón Valur að það sé erfitt að eiga við það. „Þeir fengu að bíða alveg svakalega lengi án þess að horfa á markið. Það er erfitt að spila gegn liðum sem hafa ekki meiri áhuga en það,“ sagði fyrirliðinn.

Ísland þarf nú að stóla á að annað hvort Danmörk eða Spánn misstígi sig til að eiga möguleika á sæti í undanúrslitum keppninnar. „Það eru ekki miklar líkru á því að Spánverjar tapi stigum. Það eina í stöðunni er að sinna okkar vinnu og sjá hvað það gefur.“


Tengdar fréttir

Aron: Þeir fengu blóð á tennurnar

"Þetta var mjög erfiður leikur,“ sagði landsliðsþjálfarinn Aron Kristjánsson eftir tveggja marka sigur Íslands á Makedóníu, 29-27, á EM í handbolta í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×