Handbolti

Danmörk í undanúrslit | Ísland þarf að stóla á Makedóníu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Anders Eggert í leiknum í kvöld.
Anders Eggert í leiknum í kvöld. Vísir/AFP
Danmörk tryggði sæti sitt í undanúrslitum EM í handbolta með sigri á Ungverjalandi í Herning í kvöld, 28-24. Danir eru enn fremur öruggir með efsta sæti milliriðils 1.

Danir eru með átta stig í efsta sæti og með tveggja stiga forystu á Spán sem er með sex stig. Ísland kemur næst með fimm stig en tvö efstu liðin komast áfram í undanúrslit.

Ísland og Danmörk eigast við í lokaumferð milliriðlakeppninnar á miðvikudagskvöldið. Fyrr um daginn eigast við Makedónía og Spánn en strákarnir okkar þurfa að treysta á sigur Makedóníu í leiknum til að halda í vonina um sæti í undanúrslitum.

Ef Spánverjar vinna hins vegar leikinn er sæti þeirra í undanúrslitunum tryggt. Ísland þyrfti þá að ná minnst jafntefli gegn Dönum til að tryggja þriðja sæti milliriðilsins eða þá að treysta á að Ungverjar vinni Austurríki ekki of stórt fyrr um daginn.

Það var jafnræði með liðum Danmerkur og Ungverjalands í kvöld fyrstu 20 mínútur leiksins. Danir skoruðu þá fjögur mörk í röð og gengu inn til búningsklefa í hálfleik með þriggja marka forystu, 14-11.

Danir létu svo forystuna aldrei af hendi í síðari hálfleik. Minnstur varð munurinn tvö mörk en það var á lokamínútu leiksins og sigur Dana þá svo gott sem tryggður. Mikkel Hansen og Thomas Mogensen skoruðu fimm mörk hvor fyrir Dani og Niklas Landin varði tíu skot í markinu. Hjá Ungverjalandi var Gergö Ivancsik markahæstur með átta mörk.

Spánn er nú eina liðið sem getur náð Dönum að stigum í milliriðli 1 en þar sem að Danir hafa betur í innbyrðisviðureign sinni gegn Spáni geta Danir ekki endað neðar en í efsta sæti.

Það þýðir enn fremur að Danir hafa að engu að keppa gegn Íslandi á miðvikudag og getur því Ulrik Wilbek, þjálfari Dana, valið að hvíla alla sína bestu menn í leiknum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×