Sport

Með kústana á lofti er keppt í krullu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá krullukeppni á leikunum í Vancouver árið 2010.
Frá krullukeppni á leikunum í Vancouver árið 2010. Vísir/Getty
Setningarathöfn Vetrarólympíuleikanna í Sotsjí fer fram 7. febrúar. Ein keppnisgreinanna á leikunum verður krulla.

Keppt hefur verið í krullu á leikunum frá árinu 1998. Fjórir eru í hverju liði og tvö lið keppa í hverjum leik. Reynt er að renna sérstökum 20 kg granítsteinum eftir endilangri ísilagðri braut þannig að steinninn stöðvist sem næst miðju í svokallaðri höfn.

Hver keppandi fær að renna tveimur steinum. Liðsstjóri á hinum endanum gefur merki um hvert steininum skuli renna og á meðan reyna liðsfélagar þeirra tveir að breyta hraða og stefnu steinsins með notkun sópa. Sá steinn sem endar næst miðju sigrar en einnig fást stig fyrir hvern þann stein sem er nær en steinn andstæðinganna svo framarlega sem steinarnir eru í höfninni.

Ísland hefur aldrei átt fulltrúa í krullu á Vetrarólympíuleikum. Kanadamenn hafa verið í sérflokki í íþróttinni og undantekningalaust í verðlaunasætum á leikunum.

90 sekúndna kennslumyndband má sjá í spilaranum hér að neðan. Þar má einnig sjá ítarlegra myndband þar sem sérfræðingar útskýra greinina sem svo margir hafa heyrt um en færri þekkja.

Á YouTube vef Alþjóðaólympíusambandsins má finna fjölmörg myndbönd fyrir hinar fjölmörgu greinar sem keppt verður í í Sotsjí.

Vetrarólympíuleikarnir verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport auk þess sem fjölmargar beinar útsendingar frá leikunum verða hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×