Handbolti

Ekki komnir áfram þó svo við vinnum Norðmenn

Henry Birgir Gunnarsson í Álaborg skrifar
"Ég kann mjög vel við mig í Danmörku. Alltaf þegar ég lendi í Kaupmannahöfn kemur svona tilfinning að ég sé komin heim rétt eins og í Keflavík," sagði landsliðsþjálfarinn Aron Kristjánsson. Hann var lengi búsettur í Danmörku og þjálfaði þar meðal annars lið Skjern á sínum tíma.

Eftir erfiðan undirbúning, þar sem leikmenn hafa meðal annars ekkert getað æft vegna meiðsla, eru menn að skríða saman og Guðjón Valur Sigurðsson og Arnór Atlason gátu meðal annars æft af fullum krafti í dag.

"Þetta er að smella. Guðjón Valur og Arnór eru hundrað prósent og verða með í fyrsta leik."

Leikurinn við Norðmenn verður líklega venju samkvæmt baráttuleikur. Hvernig ætlar þjálfarinn að leggja hann upp?

"Það er gríðarlega mikilvægt að vörnin haldi og náum að leysa það sem Norðmenn einbeita sér að í sókninni. Þeir keyra líka hraða miðju og við verðum að vera tilbúnir fyrir það," segir Aron en hvað með sóknina?

"Þar verðum við að vera þolinmóðir. Þegar við spilum góðan sóknarleik þá náum við varnarskiptingunum okkar. Góð sókn er því besta vörnin í þessu tilfelli."

Ef Ísland ætlar sér einhverja hluti á þessu móti þá verður liðið að leggja Noreg á morgun.

"Hann er mikilvægur upp á framhaldið. Riðillinn er mjög erfiður og hvert mark telur mikið. Við verðum að vinna vel úr stöðunni. Það er alltaf gott að komast vel af stað. Þó svo við vinnum erum við ekki komnir áfram. Við verðum því að horfa á riðilinn í heild sinni."

Viðtalið við Aron í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×