Handbolti

„Tapið á Ólympíuleikunum situr í mér“

Henry Birgir Gunnarsson í Álaborg skrifar
Félagarnir Ásgeir Örn Hallgrímsson og Snorri Steinn Guðjónsson voru léttir þegar blaðamaður Vísis ræddi við þá eftir æfingu landsliðsins í gær.

„Ungverjaleikurinn leggst vel í mig. Við byrjuðum vel, góð stemning í hópnum og engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn,“ sagði Snorri en andinn er eðlilega góður í liðinu eftir sigur í fyrsta leik.

„Menn eru léttir. Gott að byrja vel og losa smá spennu í okkur.“

Margir af landsliðsmönnunum eru miklir NFL-áhugamenn og þar á meðal eru Snorri og Ásgeir. Þeir horfðu því á NFL-leikina eftir þeir höfðu tekið Norðmenn í gegn.

„Ég er mjög ánægður með úrslitin í leikjunum. Núna fáum við Broncos og Patriots. Það verður ekki mikið betra,“ sagði Ásgeir.

Báðir léku þeir í tapinu grátlega gegn Ungverjum á ÓL í London. Þeir hafa ekki treyst sér til að horfa á þann leik aftur.

„Ég fékk þann heiður að sjá þetta aftur í Áramótaskaupinu. Ég sá þann part en hefði alveg viljað sleppa því,“ sagði Snorri Steinn og Ásgeir bætir við að honum detti ekki í hug að kíkja á leikinn.

„Þetta situr í mér. Ég fer ekkert í felur með það. Sigur núna hefnir ekki endilega fyrir þann leik. Sá leikur var þess eðlis að það er erfitt að hefna nema á Ólympíuleikum.“

Viðtalið við þá félaga má sjá í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×