Handbolti

Pólverjar töpuðu aftur með einu marki - Svíþjóð og Frakkland komin áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Karabatic átti flottan leik með Frökkum í kvöld.
Nikola Karabatic átti flottan leik með Frökkum í kvöld. Mynd/AFP
Svíar og Frakkar eru með fullt hús og gulltryggt sæti í milliriðli eftir sigra í seinni leikjum dagsins á Evrópumótinu í handbolta í Danmörku. Svíar unnu átta marka sigur á Hvít-Rússum en Frakkar unnu Pólverja í hörkuleik.

Frakkar unnu eins marks sigur á Pólverjum, 28-27, í æsispennandi leik þar sem Pólverjar fengu möguleika á því að jafna metin í lokasókn leiksins. Pólverjar hafa þar með tapað tveimur fyrstu leikjum sínum á mótinu með einu marki.

Frakkar voru 15-14 yfir í hálfleik en Pólverjar skoruðu tvö fyrstu mörk seinni hálfleiksins og komust yfir í 16-15. Frakkar komust þremur mörkum yfir í seinni hálfleiknum en Pólverjar gáfust ekki upp og úr varð æsispennandi lokakafli í leiknum. Cyril Dumoulin varði lokaskotið og tryggðu Frökkum sigurinn.

Svíar unnu öruggan átta marka sigur á Hvít-Rússum, 30-22 og hafa því unnið tvo fyrstu leiki sína með miklum mun. Svíar voru 13-10 yfir í hálfleik og gerðu endanlega út um leikinn með 9-2 spretti um miðjan seinni hálfleikinn.

Fredrik Petersen skoraði 8 mörk fyrir Svía en maður leiksins var Andreas Nilsson sem skoraði sjö mörk úr sjö skotum. Siarhei Rutenka skoraði þrettán mörk fyrir Hvíta-Rússland en það dugði skammt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×