Handbolti

Makedónía hafði betur gegn lærisveinum Patreks

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kiril Lazarov skoraði sigurmark Makedóníu í kvöld.
Kiril Lazarov skoraði sigurmark Makedóníu í kvöld. Vísir/AFP
Austurríki þarf að treysta á danskan sigur gegn Tékklandi í kvöld til að komast áfram í milliriðlakeppnina á EM í Danmörku.

Austurríki, lið Patreks Jóhannessonar, tapaði fyrir Makedóníu í fyrri leik dagsins í A-riðli, 22-21, eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik.

Makedónía var með frumkvæðið lengst af en þegar stundarfjórðungur var til leiksloka komust Austurríkismenn á góðan sprett með því að skora þrjú mörk í röð og komast yfir, 19-17.

Leikurinn var í járnum eftir þetta og staðan jöfn, 21-21, þegar Makedónía hélt í sókn og rúm mínúta til leiksloka. Stórskyttan Kiril Lazarov skoraði þegar 25 sekúndur voru eftir og þar sem Austurríkismenn náðu ekki að svara reyndist það sigurmark leiksins.

Lazarov skoraði átta mörk fyrir Makedóníu en markahæstur hjá Austurríki var hornamaðurinn Konrad Wilczynski með sjö mörk. Roland Schlinger skoraði fimm.

Báðir markverðir áttu góðan dag. Nikola Marinovic varði 22 skot í austurríska markinu og Borko Rotovski nítján skot fyrir Makedóníu.

Danmörk er öruggt með sigur í A-riðli en þarf að vinna Tékka til að tryggja að liðið fari áfram með tvö stig í milliriðil. Tékkland er stigalaust í neðsta sæti riðilsins.

Austurríkismenn, sem unnu Tékka á sunudaginn, komast því áfram í milliriðla með dönskum sigri í kvöld. Það er hins vegar ljóst að komist Austurríki fer liðið stigalaust í milliriðilinn í Herning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×