Handbolti

Lackovic ekki með Króötum á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blazenko Lackovic í leik með króatíska landsliðinu.
Blazenko Lackovic í leik með króatíska landsliðinu. Mynd/AFP
Króatar verða án reynsluboltans Blazenko Lackovic á EM í handbolta í Danmörku en stórskyttan varð að draga sig út úr hópnum vegna hnémeiðsla.

Blazenko Lackovic hefur verið lykilmaður í króatíska landsliðinu undanfarin áratug en meiðsli á hné tóku sig upp í æfingaleik á móti Túnis þegar hann lenti í samstuði við leikmann Túnis. Lackovic spilar með þýska liðinu HSV Hamburg og hefur skorað yfir 570 mörk fyrir landsliðið.

Slavko Goluza, þjálfari Króatíu, ákvað í framhaldinu að skilja Lackovic eftir heima. „Það er slæmt að þurfa að skilja  Lackovic eftir en við höfum bara ekki tímann til að bíða eftir að hann nái sér góðum," sagði Goluza á blaðamannafundi í Króatíu.

Þar sem Blazenko Lackovic er ekki með eru einu vinstri skyttur liðsins þeir Damir Bicanic og Stipe Mandalinic. Damir Bicanic spilar með Chambéry í Frakklandi en Mandalinic er hjá RK Zagreb í Króatíu.

Króatar hafa unnið verðlaun á síðustu þremur Evrópumótum, voru í 2. sæti 2008 og 2010 og unnu síðan bronsið í Serbíu fyrir tveimur árum. Þeir eru í riðli með Svíþjóð, Hvíta-Rússlandi og Svartfjallalandi á EM og fyrstu leikurinn er á móti Hvíta-Rússlandi á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×