Skoðun

Sam­fé­lag jafn­réttis og lýð­ræðis

Eygló Harðardóttir skrifar

Í dag legg ég fyrir lögbundið jafnréttisþing skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála 2011-2013. Á þinginu verður fjallað um fjölmargar hliðar jafnréttismála en megináhersla lögð á jafnrétti á vinnumarkaði. Konur fylktu liði á sögufrægum baráttufundi árið 1975 sem aldrei gleymist. Æ síðan hefur 24. október verið helgaður baráttunni fyrir réttindum kvenna á vinnumarkaði. Enn er þó kynbundinn launamunur um 9%. Við getum ekki sætt okkur við slíkar afskriftir á launum dætra okkar, þessum hróplega mun verður að útrýma.



Öflug kvennahreyfing er nauðsynleg en ekki næg forsenda framfara í jafnréttismálum. Þekking byggð á rannsóknum er undirstaða þess að við getum haldið áfram að ryðja úr vegi hindrunum á leið okkar að réttlátara samfélagi.



Skýrsla ráðherra er afrakstur slíkrar vinnu. Hún sýnir að margt hefur áunnist en dregur einnig fram stórar áskoranir. Þeim munum við mæta og halda áfram að byggja upp samfélag þar sem allir njóta jafnréttis í víðasta skilningi og engin mismunun fær þrifist. Liður í aðgerðum gegn mismunun af öllu tagi eru frumvörp til breytinga á jafnréttislögum sem ég legg fram á Alþingi á næstunni.



Framundan eru merk tímamót þegar 100 ár verða liðin frá því að íslenskar konur, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi. Við þessi tímamót ber að horfa um öxl. Við eigum að skrá helstu vörðurnar í jafnréttissögu landsins, styrkja fræðsluverkefni og rannsóknir sem miðla þekkingu um lýðræðisþróun og baráttu fyrir auknum borgara- og stjórnmálalegum réttindum.



Við eigum að kortleggja þátttöku kvenna í stjórnmálum og greina hvað skýrt getur kynjaskekkjuna á vettvangi stjórnmálanna. Það felast sóknarfæri í því að standa myndarlega að verki þegar við höldum upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Við getum sótt fyrirmyndir og unnið með hinum Norðurlandaþjóðunum sem nú minnast sömu tímamóta.



Höfum að leiðarljósi orð Bríetar Bjarnhéðinsdóttur sem hún ritaði í fyrstu opinberu baráttugreinina fyrir réttindum kvenna – þekking er veldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×