Skoðun

Alþingisambögur

Kristján Hreinsson skrifar
Nýverið birtust hér í blaðinu 17 erindi af því sem höfundur, Sif Sigmarsdóttir, kallar Alþingislimrur. En reyndar er hér á ferð hið versta hnoð sem ég hef séð á prenti. Kannski leyfist höfundi að kalla þetta limrur í lokuðum hóp fólks sem ekkert veit um kveðskap, bragarhætti og annað þvíumlíkt. En að leyfa sér að birta á prenti slíkt rusl, undir heiti hins fagra limruforms, er náttúrlega höfundi til ævarandi skammar. Það er einfaldlega ekki öllum gefið að setja saman brag og það hefur Sif Sigmarsdóttir sannað með óyggjandi hætti. Það er einnig til háborinnar skammar að Fréttablaðið skuli leyfa sér þann glæp að ráðast að helgum véum limrunnar með því að birta umrætt hnoð.

Galdur í einfaldleikanum

Limra er vísa í fimm línum og er formið þannig að fyrstu tvær línurnar og sú fimmta ríma með endarími, og svo ríma lína þrjú og fjögur. Oftast er um valstakt að ræða, þ.e. þrískiptur taktur er ríkjandi, þótt finna megi ótrúlegustu afbrigði sem ekkert eiga skylt við þrískiptan takt. Í því sem e.t.v. má kalla fyrirmyndarlimru eru línur eitt, tvö og fimm þannig byggðar að fyrst kemur forliður, þá koma tveir þríliðir og svo tvíliður. En línur þrjú og fjögur eru aftur á móti þannig byggðar að fyrst kemur forliður, þá einn þríliður og svo stúfur (getur líka verið tvíliður eða jafnvel þríliður):

Ef ljóðskáldið limru vill yrkja

má líklega kímnina virkja

og víst er hún góð

hjá vísnanna þjóð

ef vináttuböndin skal styrkja.

Ef ljóðskáldið limru vill yrkja má líklega kímnina virkja og víst er hún góð hjá vísnanna þjóð ef vináttuböndin skal styrkja.

Formið er í raun bæði einfalt og flókið, því þrátt fyrir einfalt yfirbragð býr skemmtilegur galdur í þessum einfaldleika. Og ef ég reyni að lýsa þessum galdri, þá er hann falinn í því að fyrst kemur lína sem kynnir það sem lýsa skal og þá kemur lína sem undirstrikar þá fyrstu eða lýsir viðfangsefninu nánar. Svo koma tvær stuttar línur sem eru tröppur upp í lokahnykkinn. Lokalínan setur svo punktinn aftan við frásögnina. Þetta gerir það að verkum að formið sjálft verður epískt; frásögn leynist í forminu sjálfu. Þessi galdur verður sýnilegur og jafnvel afar áberandi þegar réttum brögðum er beitt.

Íslensk hefð hefur svo bætt við limruna stuðlasetningu sem í dag þykir nauðsynlegt að skarta ef limra á að teljast boðleg. Stuðlasetningin er þá byggð á þeim reglum og þeim hefðum sem prýða íslenska bragfræði.

Ekki sé ég ástæðu til að draga fram sögu limrunnar eða styðja mál mitt ítarlegri rökum þegar ég legg á það áherslu að Sif Sigmarsdóttir ætti að leita til sérfræðinga áður en hún gerir aðra atlögu að bragfræðinni. Limran er yndislegt bragform og jafnvel þótt einstaka ambögur geti verið fyndnar, þá er algjör óþarfi að safna þeim öllum saman og setja á prent. Sif ætti sem fyrst að biðja alla velunnara kveðskapar afsökunar á framferðinu. Hún sýnir okkur að vísu að hún hefur kjark til að núllstilla íslenska limrugerð með atlögu sinni. En hér verður henni ekki hrósað fyrir þá döngun.

Ég get ekki annað sagt en að hortittasafn Sifjar Sigmarsdóttur hljóti að flokkast sem það versta sem ég hef lesið – hef ég þó lesið margt á langri ævi.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×