Fastir pennar

Fábrotin fjölbreytni

Pawel Bartoszek skrifar
Kæri vinur, kæra vinkona. Þú segist elska fjölbreytni. Þér finnst samt að það eigi að vera bannað að reykja á börum og skemmtistöðum. Það er nú alveg gefið. Þetta er lýðheilsuspurning og líka spurning um heilsu starfsfólks. Frelsi snýst ekki um rétt til að skaða aðra. Og raunar snýst frelsi heldur ekki um rétt fólks til að skaða sjálft sig. Við ættum alla vega að gera fólki það erfitt.

Þú segir að fólk sé fjölbreytt og við eigum að fagna því.

Fegurðarsamkeppnir eru samt fáránleg tímaskekkja. Að láta menntaskólanema keppa í því hver sé með heila sem geymi mest af fánýtum fróðleik, við höfum vanist því. En að keppa í því hver sé sætastur? Það er fáránlegt. Hver myndi vilja gera slíkt? Örugglega ekki þú. Og þú óttast þau skilaboð sem þetta sendir til ungra kvenna.

Þú mætir á fjölmenningarhátíð og bragðar litháískan mat. Þú lærir að segja „takk“ á öðrum tungumálum þegar þú ferð til útlanda. En þér finnst reyndar að útlendingar sem flytja til Íslands ættu að læra íslensku. Ekki þín vegna heldur þeirra vegna. Íslenskan er lykillinn að samfélaginu. Þess vegna ætti að skylda alla innflytjendur í íslenskunám, en hafa það bara ókeypis. Þú vilt samt ekki meina að þú hafir eitthvað á móti útlendingum. Þetta hefur ekkert að gera með þjóðerni fólks. Þú vilt til dæmis líka að börn séu í skóla til 18 ára aldurs. Þau hafa gott af því.

Þú vilt ekki að meirihlutinn þröngvi lífsskoðunum sínum upp á aðra. Þér fannst fáránlegt að eitthvað fólk í Sjálfstæðisflokknum hafi viljað að lagasetning tæki mið af „kristnum gildum“. Þvílík fásinna! En þegar ung kona í Sjálfstæðisflokknum lagði til að ein slík lög yrðu afnumin þá fannst þér það fáránlegt. Því auðvitað á að vera bannað að selja áfengi á sunnudögum og öðrum hátíðisdögum þjóðkirkjunnar. En þér finnst það ekkert hafa með kristni að gera. Sumir dagar eiga einfaldlega að vera áfengislausir.

Viss um að þú meinir vel

Stundum segistu eiginlega vera anarkisti og algjört rebel: Vilt eiginlega ekkert hafa of mikið af reglum. En auðvitað eiga 40 prósent í stjórnum allra fyrirtækja að vera konur og 40 prósent karlar. Ef einhver vill bara hafa eina konu í fimm manna stjórn í fyrirtækinu sínu þá gengur það ekki. Þær verða að vera tvær eða þrjár. Fjölbreytninnar vegna.

Já, þú fagnar oftast fjölbreytni. En samt minna þegar málið snýst um peninga og rekstur. Þú vilt til dæmis ekki að heilbrigðisstofnanir verði einkareknar. Þá myndum við búa við tvöfalt kerfi. Hinir ríku gætu keypt sér betri heilbrigðisþjónustu en hinir fátæku. Og það viltu náttúrlega ekki. Þér er raunar ekki sérstaklega vel við einkaskóla heldur. Þú myndir örugglega ekki vilja leyfa þá ef engir slíkir væru til. En fyrst einhverjir eru til þá verðum við víst að umbera þá. En við ættum alls ekki að reyna að fjölga þeim og helst fækka þeim. Með sömu rökum og áður: Við viljum ekki tvöfalt menntakerfi, eitt fyrir hina ríku og annað fyrir hina.

Þér finnst að það eigi almennt ekki að skipta sér af því hvað fólk gerir. En klám á auðvitað að vera bannað. Tölum nú ekki einu sinni um eiturlyf eða fjárhættuspil. Fólk á vissulega að vera frjálst, en ekki frjálst til að skaða sig. Ekki frjálst til að eyðileggja í sér heilann með einhverju ógeði eða frjálst til að leggja fjárhag sinn í rúst. Fólk á að vera frjálst til að gera hluti eins og að mennta sig eða stunda íþróttir. Samt ekki box. Box eyðileggur heilann í fólki. Það eru til læknisrannsóknir sem sýna það.

Kæra vinkona, kæri vinur. Ég segi ekki að þú meinir illa, raunar er ég nokkuð viss um að þú meinir vel. Flest af þeim boðum og bönnum sem þú leggur til ertu örugglega viss um að geri samfélagið betra. En ég verð samt að segja. Fábrotin er nú þessi fjölbreytni þín. Það er ekki ýkja merkilegt umburðarlyndi að umbera bara það sem manni sjálfum líkar.






×