Bakþankar

Sparkað í dekk á grilli

Halldór Halldórsson skrifar
Mér skilst að það sé gjörsamlega dottið úr tísku hjá karlmönnum að eiga flotta bíla.

Sjálfsímyndarlega séð fá menn ekkert út úr því lengur. Í dag kaupa menn í ímyndarkrísu sér frekar lítið reiðhjól heldur en stóran jeppa. Sem er kannski ágætt.

Nú snýst þetta allt um að eiga geggjuð grill. Cadillac skipt út fyrir Weber, Benz fyrir Landsmann. Stór og kraftmikil grill sem urra þegar maður kveikir undir brennurum. Grill sem þjóta í gang og eru klár að taka við maríneruðum lettum allan sólarhringinn.

Menn eru hættir að tala um tommufjöldann í dekkjunum. Hvað þeir eru lengi upp í 100, hvort kertin séu sótuð eða lakkið svo bónað að hægt sé að spegla sig í því. Nú tala þeir bara um að nudda lauk upp við teina, að grilla á lágum en ekki háum hita, hvaða marínering trylli lambið og hvert sé hið rétta hlutfall af Mars súkkulaði í hverjum banana.

Mér fannst þessi tíðarandabreyting nokkuð spennandi, þar til ég tók grillið mitt fram í vor. Það kæmist fyrir í einni skjalatösku og kolamagninu gæti maður líklega troðið í vasann. Ég get eiginlega ekki grillað nema þrjár kótelettur í einu og kartöflurnar þarf ég að baka í ofni.

Grillið mitt er ígildi þess að eiga hvítan Daihatsu Charade ‘87 módel, þar sem búið er að rífa áklæðið af sætunum og gubba í öskubakkann.

Ég öfundaði mennina með stóru grillin þar til ég áttaði mig á því að við erum allir staddir í sama bátnum – á sömu svölunum, með sjóðandi heit grill og stirð bros. Þegar snjórinn lendir getur maður sett nagladekk undir bílinn. En þegar það kemur haglél í maí – er ekkert hægt að gera.

P.s.: í vikunni setti ég upp eldhúsinnréttingu og tók 100 kg í bekkpressu í fyrsta skipti. Á hvaða hita ætlarðu að grilla það, apinn þinn?






×