Fastir pennar

"Heilbrigt“ kynlíf…

Teitur Guðmundsson skrifar
Þegar við veltum fyrir okkur hvað það er að stunda heilbrigt kynlíf getur ýmislegt komið upp í huga fólks. Sumir kynnu að velta fyrir sér praktík, aðrir að horfa til sjúkdóma og örugglega margir sem horfa til þess að það sé gert með samþykki beggja aðila og á jafnræðisgrundvelli. Nýleg mynd í leikstjórn Páls Óskars Hjálmtýssonar, Fáðu Já !, var sýnd við góðar undirtektir í skólum landsins og í sjónvarpi. Þar var beitt annarri nálgun en hefðbundið er í kynfræðslu til yngri kynslóðarinnar og sérstaklega var tekið á mörkum kynlífs og ofbeldis, sem þótti takast með miklum ágætum. Það er staðfest sem okkur hefur lengi grunað, þ.e.a.s. að íslenskir unglingar byrji tiltölulega snemma að stunda kynlíf í samanburði við önnur lönd, eða í kringum 15 ára aldur. Þá er það áhyggjuefni að kostnaður við kaup á getnaðarvörn eins og smokknum hindri unglingana í því að nota slíkar sjálfsagðar varnir. Þeir eru feimnir við að biðja um pening fyrir slíku hjá foreldrum sínum og má ljóst vera að of oft eru stunduð kynmök án varna sökum þessa. Það er ekkert launungarmál að tíðni kynsjúkdóma er hæst í aldurshópnum 15-25 ára og hefur lengi verið svo, alvarlegir sjúkdómar leynast þarna á meðal og geta haft veruleg áhrif á framtíð ungs fólks. Þar nægir að nefna mögulega ófrjósemi hjá konum af völdum klamydíusýkingar, en alvarlegri sjúkdómar eins og HIV og lifrarbólga smitast einnig við kynlíf og geta verið óafturkræfir. Fjöldi tilfella af klamydíu á Íslandi er einna hæstur í heimi og er ekki ljóst hvers vegna það er. Sumir telja okkur fara óvarlegar og eiga fleiri rekkjunauta, aðrir segja að gott aðgengi sé að slíkri skoðun, umræðan hefur verið virk og prófið er ókeypis. Hvað sem rétt reynist erum við að greina of marga á hverju ári. Ríflega 2.000 greiningar eru á hverju ári og hefur þeim farið fjölgandi undanfarin ár samkvæmt tölum landlæknis. Hið sama gildir um tíðnitölur lekanda og HIV, en sárasótt stendur í stað yfir tilkynningarskylda sjúkdóma. Þetta er met sem ekki er hægt að vera stoltur af sem Íslendingur. Þetta eru ekki nýjar fréttir en það sem kannski stingur mann mest er að samskipti milli foreldra og unglinga virðast ekki nægjanlega góð, upplýst umræða á heimilinu virðist vera undantekning frekar en regla og þurfum við að finna leið til að breyta því. Í því samfélagi sem við lifum í dag virðast enn þrífast verulegar ranghugmyndir um nær alla þá þætti sem snúa að kynlífi, kynheilbrigði og mörkum ofbeldis, þrátt fyrir gnótt upplýsingaflæðis á veraldarvefnum og í internetvæddum símum ungmenna nú til dags. Það er því ekki hægt að bera við skorti á möguleikum til að fræðast. Vefsíður hafa þar leikið ákveðið hlutverk og markviss kynfræðsla fer fram í skólum og í gegnum sjálfboðavinnu læknanema, Ástráð, svo eitthvað sé nefnt. En betur má ef duga skal! Mér sem lækni finnst stundum að fræðslan og umræðan snúist fyrst og fremst um ótímabæra þungun og að okkur beri að koma í veg fyrir slíkt. Ósjaldan kemur móðir með dóttur sína til að biðja um pilluna, en hún ver einstaklinginn nákvæmlega ekkert gegn kynsjúkdómi. Mögulegt er að hún ýti kannski frekar undir minni notkun smokka og þar með aukna smithættu. Hér er auðvitað fræðsla lykilatriði og hlýtur að stærstum hluta að falla á herðar foreldra. Nú hef ég ekki neinar nýjar tölur um notkun getnaðarvarnapillunnar hér í samanburði við lönd í kringum okkur en það væri fróðlegt að vita hvort við eigum líka met í þeirri notkun. Það má telja líklegt. En hver er þá niðurstaðan? Að mínu viti er hún margþætt. Í fyrsta lagi þarf að bæta aðgengi að getnaðarvörnum eins og smokkum, skoða þarf kynfræðslu í skóla og endurmeta hana í samvinnu við nemendur og foreldra. Það ætti að skylda foreldri til að taka svipuð námskeið, enda ekkert sem segir til um hæfni foreldra til að miðla upplýsingum í raun, hvað þá heldur að þeirra eigin reynsla sé endilega til þess fallin að geta veitt leiðbeiningu. Þetta ætti því ekki að vera neitt feimnismál. Nýleg lög um bólusetningu barna við HPV-veiru er stórt skref í kynheilbrigði og virðingarvert á niðurskurðartímum en betur má ef duga skal. Við erum því líklega öll sammála að kynlíf er eitthvað stórkostlegt og ef vel tekst til eykur það sjálfstraust, vellíðan og almenna hamingju þeirra sem þess njóta. Því ætti að hvetja til þess en að sama skapi uppfræða um hætturnar. Heilbrigt kynlíf hlýtur að verða mottó okkar allra!





×