Innlent

Neyðarfundur í Menntaskólanum í Reykjavík

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Borgar Þór Einarsson er formaður skólanefndar Menntaskólans í Reykjavík.
Borgar Þór Einarsson er formaður skólanefndar Menntaskólans í Reykjavík.
„Stjórnendur skólans standa í raun ráðþrota frammi fyrir þessari stöðu. Ef ekki væri fyrir ótrúlega fórnfýsi þeirra og í raun og veru sjálfboðavinnu þá væri skólastarfið farið að líða verulega fyrir þetta,“ segir Borgar Þór Einarsson, formaður skólanefndar Menntaskólans í Reykjavík í samtali við Vísi.

Neyðarfundur verður haldinn í MR í hádeginu í dag vegna stöðu sem upp er komin í fjármálum skólans. Borgar Þór segir að fjárframlög til skólans hafi dregist jafnt og þétt saman síðustu árin og í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi fái nemendur MR enn og aftur lægst framlög allra framhaldsskóla á landinu.

„Stjórnendur skólans hafa kappkostað við að virða þær fjárheimildir sem þeim hafa verið settar og þannig hafa yfirvöld litið svo á að skólinn þyrfti ekki meira. Sem dæmi sinnir rektor skólans ekki aðeins sínu starfi heldur einnig starfi fjármálastjóra sem og kerfisstjóra tölvumála. Það er búið að skera allt niður sem hægt er,“ segir Borgar Þór.

Í yfirlýsingu frá skólanefnd MR segir að á undanförnum árum hafa framlög til skólans dregist mjög aftur úr framlögum til sambærilegra skóla og stóðu vonir til þess nú að hlutur nemenda MR yrði réttur. Sú tillaga sem fyrir liggur er öðru nær.

„Í MR sækja um toppnemendur og það þarf mjög háa meðaleinkunn til að komast inn í skólann. Ár hvert þarf að synja mörgum inngöngu. Þá skilar skólinn af sér góðum raungreinanemendum í háskólanám. Þetta er allt vitnisburður um það að í skólanum er stundað eftirskóknarvert nám,“ segir Borgar og bætir við: „Aðbúnaður þessara nemenda er eiginlega ekki boðlegur lengur. Því gæðagóða skólastarfi sem MR hefur verið þekkt fyrir verður ekki haldið uppi að óbreyttu.“

Skólanefndin hefur boðað til neyðarfundar í hádeginu í dag með fulltrúum kennara, foreldra og nemenda, ásamt stjórnendum skólans, til að ræða þá alvarlegu stöðu sem komin er upp í skólanum.

„Svo er vert að velta fyrir sér af hverju það er þannig að forsvarsmenn ríkisstofnana sem virða ekki fjárheimildir fá hækkuð fjárframlög á meðan þeim sem kappkosta að virða sínar fjárheimildir er sífellt refsað fyrir það,“ segir Borgar að lokum.

Fréttablaðið og Vísir fjölluðu um fjárhagsstöðu Menntaskólans í Reykjavík í október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×