Lífið

Missti vinnuna í hruninu og lét drauminn rætast

Ellý Ármanns skrifar
Íslensk hönnun, brosandi stóllinn Stubbi var frumsýndur í Epal í vikunni nú þegar Hönnunarmars stendur sem hæst.

Hönnuður Stubba, Gústaf A. Hermannsson byggingafræðingur er einn af mörgum í byggingageiranum sem varð atvinnulaus eftir hrun. Hann hafði lengi gengið með þann draum í maganum að hanna húsgögn fyrir krakka enda hafði langafi hans verið duglegur við að smíða leikföng. Gústaf vildi hanna eitthvað alveg sérstaklega fyrir börn en ekki eingöngu smækkaða útgáfu af fullorðinshúsgögnum.

Þar sem hann er handgerður eru engin tvö eintök af Stubba nákvæmlega eins. Hann er úr tré, stöðugur og traustur, en ekki of þungur svo börn geta fært hann sjálf til. Eins og er eru tvær litasamsetningar í boði.

Hægt er að skoða stólinn í Epal á meðan á Hönnunarmars stendur. Hann er þar ásamt 39 öðrum hlutum, sem 33 hönnuðir hafa búið til.

Börn átta sig eins og skot að stóllinn er gripur sérstaklega hannaður fyrir þau þegar þau sjá hann.
Stóllinn er hannaður og smíðaður af Gústa sjálfum. Hann sprautaði stólinn líka.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×