Innlent

Biophilia fékk Grammy-verðlaunin fyrir hönnun

Björk Guðmundsdóttir.
Björk Guðmundsdóttir.
Biophilia, plata Bjarkar, fékk bandarísku Grammy-verðlaunin í nótt fyrir hönnun. Það voru þeir Michael Amzalag og Mathias Augstyniak, samstarfsmenn Bjarkar til margra ára, sem fengu verðlaunin fyrir hönnunina.

Grammy-verðlaunahátíðin var haldin vestanhafs í nótt. Það var hljómsveitin Mumford & Sons sem fékk aðalverðlaunin en plata þeirra Babel var valin besta plata ársins. Hljómsveitin Fun fékk verðlaunin sem besti nýliði ársins og raunar fékk lag þeirra We Are Young, þar sem Janelle Monae slæst í hóp með þríeykinu, verðlaunin sem besta lag ársins.

Ástralski söngvarinn Gotye vann þrenn verðlaun. Þeirra á meðal voru verðlaun fyrir smáskífu ársins með laginu Somebody That I Used to Know með söngkonunni Kimbru frá Nýja-Sjálandi í broddi fylkingar. Biophilia Bjarkar var tilnefnd sem besta jaðarplatan en þar sigraði Gotye með sinni plötu, Making Mirrors. Björk hefur því verið tilnefnd alls þrettán sinnum til verðlaunanna en aldrei unnið sjálf þar sem verðlaunin í nótt voru merkt fyrrnefndum samstarfsmönnum hennar.

Rokkararnir Dan Auerbach og Patrick Carney í Black Keys nældu einnig í þrenn verðlaun. Þar á meðal áttu þeir rokkplötu ársins, El Camino. Auerbach var einnig kjörinn framleiðandi ársins.

Meðal annarra verðlaunahafa má nefna Jay-Z og Kanye West, DJ Skrillex, Adele, Zac Brown Band, Miguel og Kelly Clarkson.

Þá sneri Justin Timberlake aftur í sviðsljósið eftir langa fjarveru af tónlistarsviðinu. Hann söng lagið Suit & Tie fyrir áhorfendur en lagið er það fyrsta sem hann gefur út í fimm ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×