Fastir pennar

Tillögur að skipulagi heilbrigðisþjónustu á Íslandi

Teitur Guðmundsson skrifar
Ég skrifaði grein nýverið um framtíð heilbrigðisþjónustu hérlendis og velti vöngum yfir því hvað væri skynsamlegt að athuga í því samhengi. Þessi grein er áætlað framhald hennar með innleggi í umræðuna sem hefur verið undanfarið. Allar götur síðan ég kom heim úr námi árið 1999 hefur verið býsna neikvæð umræða um heilbrigðisþjónustu. Þá þykir mér hún hafa aukist til muna síðastliðin ár eða frá kreppu og má líklega setja almenna vanlíðan og öryggisleysi samfara umfjöllun um skuldavanda heimila, fyrirtækja og ríkis að einhverju leyti í samhengi við það. Ítrekaðar frásagnir eru af sparnaði, lélegum tækjakosti og húsnæði, slælegum aðbúnaði starfsmanna, lélegum launum og svona mætti lengi telja. Það sárvantar að ræða hið góða og benda á jákvæða hluti sem eru að gerast alla daga líka í heilbrigðisþjónustunni. Þá má ekki gleyma að reikna þjóðhagsleg áhrif af góðri heilbrigðisþjónustu og fara að líta á það sem hagnað fremur en endalausan kostnað eins og okkur hættir til að gera.

Við megum ekki gleyma því að þrátt fyrir allt erum við smáþjóð sem ber sig saman við þær allra stærstu og við krefjumst almennt þess að lífsgæði okkar séu sambærileg á við þær og helst betri. Ég vil reyndar meina að á margan hátt séum við öfundsverð, en auðvitað er margt sem betur mætti fara. Í þessu ljósi er rétt að átta sig á því að við getum ekki keppt í öllum greinum læknisfræðinnar sökum skorts á fjölda sjúklinga til að viðhalda færni og þjálfun fyrir utan þá augljósu staðreynd að við eigum ekki þann tækjakost sem til þarf, hvað þá húsnæði sem stenst kröfur nútímans. Við því þarf að bregðast með stefnumörkun.

Fagfólk á heimsmælikvarða

Ég tel að við eigum fagfólk á heimsmælikvarða, þá sérstaklega þegar kemur að ósérhlífni, samstöðu og þeim séríslenska eiginleika að láta hlutina "reddast" eða ganga upp. Það er nefnilega þess vegna sem heilbrigðiskerfið er jafn gott og raun ber vitni. Við heilbrigðisstarfsmenn sættum okkur ekki við annað en að leggja okkur fram um að ná sem bestum árangri hverju sinni, en það læðist óneitanlega sá grunur að manni að verið sé að bregða fæti fyrir okkur á stundum með misgáfulegum ákvörðunum. Samráð er af skornum skammti og alþingismenn, meira að segja fyrrum velferðarráðherra, standa í niðurskurði en leggja á sama tíma til að skoðuð verði niðurgreiðsla til græðara, einfaldlega vegna persónulegrar reynslu einhvers þeirra. Allt þetta þegar ekki einu sinni er búið að tryggja niðurgreiðslu hefbundinna faga eins og tannlækninga eða sálfræðiþjónustu.

En hvernig ætti heilbrigðisþjónustan að vera? Flest erum við sammála því að heilsugæslan ætti að vera fyrsti viðkomustaður þess sem leitar eftir þjónustu og að hún geti þá sinnt þeim þörfum sem skilgreindar eru af notendum hennar. Hingað til hefur slík skilgreining ekki verið sett fram af hálfu notenda svo mér sé kunnugt um heldur hafa fagaðilar og stjórnendur lagt línurnar nær eingöngu og liggur vandi "þjónustuveitandans" mögulega í þeirri þversögn að telja sig vita hvað notandinn vill en leita ekki eftir slíkum upplýsingum. Við eigum einnig að skoða hverjar þarfir fagaðilanna eru og reyna að samræma þessi sjónarmið líkt og gerist í öllum rekstri. Sömu nálgun þarf varðandi sjúkrahúsþjónustu og alla stoðþjónustu svo hægt sé að átta sig á samhengi hlutanna.

Sjúklingar ættu að eiga það sem kalla mætti "þjónustufulltrúa" sem mætti jafnvel vera rafrænn þar sem þeir gætu nálgast sínar upplýsingar, tímabókanir, geymt lyfjakort, helstu greiningar, rannsóknarsvör, lækna, staðsetningar, símanúmer og upplýsingar um þær forvarnir sem viðkomandi ætti að horfa til samkvæmt klínískum leiðbeiningum. Allt þetta krefst auðvitað þess að við höfum samtengda rafræna sjúkraskrá, en allar þessar upplýsingar liggja nú þegar fyrir. Einungis þarf að leysa hvernig á að birta þær skjólstæðingnum sjálfum eða fulltrúa hans.

Samræma þarf sjúkraskrá

Við þurfum að auka afköst á sama tíma og við verðum að tryggja gæðin, það gerist með hvatakerfum, góðu eftirliti og tölvukerfi sem uppfyllir væntingar. Nú er mikið rætt um nauðsyn þess að byggja nýtt sjúkrahús sem kostar milljarðatugi og er líklega góð fjárfesting til lengri tíma litið, en við höfum ekki enn náð því að samræma sjúkraskrá sem ég myndi setja í algeran forgang umfram allt annað í heilbrigðisþjónustunni í dag vegna þess tiltölulega litla kostnaðar sem því fylgir og þess mikla hagræðis og framtíðartækifæra sem það gefur okkur.

Þá þarf að leysa mönnunarvanda landsbyggðarinnar þar sem ekki hafa fengist læknar til starfa á sumum stöðum nema í gegnum afleysingar sem er dýrari kostur og verri samfella þjónustu. Mögulega væri slíkt gert með því að taka aftur upp héraðsskyldu eins og tíðkaðist forðum. Ég tel þó betra að veita þjónustuna á afmörkuðum svæðum með vaktarúllu bráðatækna (paramedics) og vel þjálfuðum hjúkrunarfræðingi (nurse practicioner) með stuðningi miðlægrar fjarskiptaþjónustu þar sem læknar væru til ráðgjafar allan sólarhringinn jafnvel með myndsímatækni. Slík eining þar sem símaþjónusta fyrir allt landið væri samhæfð og tímabókanir jafnvel líka myndi skila mikilli hagræðingu og yfirsýn. Þá þyrfti að efla upplýsingagjöf til almennings og veita leiðbeiningar um það hvernig á að nálgast heilbrigðisþjónustu með miðlægri vefsíðu, í gegnum símaráðgjöf, auglýsingar og upplýsingabækling á hvert heimili. Þá tel ég nauðsynlegt að gera almenningi kleift að átta sig á kostnaði vegna veittrar heilbrigðisþjónustu þó greiðsluþátttaka aukist ekki endilega. Það eykur virðingu fyrir þjónustunni og gerir hana að lokum skilvirkari. Dæmi um þetta er að kostnaður vegna heilsugæslu og sjúkrahússþjónustu er að mestu falinn og kemur ekki fram á reikningi skjólstæðings, en hann er sýnilegur á reikningum sérfræðilækna á stofu, þessu þarf að breyta.

Samræma þarf betur þjónustu sérfræðilækna, sjúkrahúsa, heilsugæslu, sálfræðinga, sjúkraþjálfara og annarra fagstétta í heilbrigðisþjónustu með einu upplýsingakerfi, þannig sparast miklar fjárhæðir, upplýsingar verða miðlægar, meðferð batnar og öryggi sjúklinga eykst til muna sem hlýtur að vera meginmarkmiðið í því skyni að veita góða og skilvirka heilbrigðisþjónustu.






×