Skoðun

Litla stúlkan með eldspýturnar?

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Við Ragnar Th. Sigurðsson ljósmyndari höfum mælt stöðu brúnar á Steinsholtsjökli í allmörg ár. Skriðjökullinn gengur norður úr Eyjafjallajökli. Hann hefur hopað og þynnst samfellt á mælitímabilinu og er fulltrúi allra skriðjökla landsins og raunar yfir 90% allra jökla utan Grænlands og Suðurskautslandsins en þeir eru um 300 þúsund. Allur jökulís heims geymir rúm 2% vatnsins á yfirborði jarðar. Hann er afar mikilvægt ferskvatnsforðabúr, einkum í fjalllendi heimsálfanna og á láglendi nærri því. Hin rúm 97% eru saltur sjór.

Meðalhiti á jörðinni hefur hækkað um 0,7 gráður á Celsíus á undanförnum eitt hundrað árum og aldrei hraðar en undanfarna áratugi enda aukning gróðurhúsagasa hraðari en sést hefur í mæligögnum úr ískjörnum sem sýna þá sögu í 650 þúsund ár. Ísland hefur færst, hvað gróður og dýralíf varðar, um 800 km í suður.

Enginn vafi

Enginn vafi leikur lengur á meginorsökunum. Þær felast í síaukinni dreifingu gróðurhúsagasa, hömlulítilli gróðureyðingu og æ meiri rykmengun vegna athafna manna. Hiti hækkar í neðstu loftlögum en það kólnar í heiðhvolfinu. Talið er að efnahagskerfi heims geti þolað hitastigshækkun um allt að 2°C á næstu fjórum til sex áratugum og hækkun heimshafanna um allt að einn metra. Hvort tveggja kallar á gríðarleg fjárframlög og veldur flestöllum þjóðum miklu raski.

Í þessum mánuði kom út skýrsla Alþjóðabankans „Turn Down the Heat". Stofnunin er frekar þekkt fyrir íhaldssemi en andstæðu hennar í þjóðfélagsmálum. Í skýrslunni kemur fram svipuð afstaða og í skýrslu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar fyrir skömmu. Meðal annars er því haldið réttilega fram að ekki megi nýta nema þriðjung þekktra birgða kolefniseldsneytis í heiminum ef við ætlum að halda okkur innan 2° hækkunar ársmeðalhitans – nema þjóðunum takist að binda kolefni á heimsvísu með nýrri tækni og gróðurframförum. Næstum tveir þriðju hlutar birgðanna eru kol, 22% olía og 15% gas, aðallega í Bandaríkjunum, Mið-Austurlöndum, Kína og Rússlandi.

Oftrú á skyndigróða

Núna er ekkert samkomulag í sjónmáli um verulegar framfarir í að sporna við hlýnun andrúmsloftsins, þvert á móti. Nýjustu hugmyndir um að nýta flóknar og dýrar aðferðir við að ná upp olíu og gasi norðan heimskautsbaugs, á erfiðum slóðum, vekja svartsýni á vegferð næstu ára eða áratuga. Skammsýni og oftrú á skyndigróða sýnast ætla að ríkja yfir varkárni og skynsemi. Hvar er umhyggjan fyrir heimsbyggð morgundagsins?

Stjórnmál vega afar þungt í þessum efnum. Líka þrýstingur almennings. Ég hef sagt það áður og skrifa hér enn einu sinni: Íslendingar hafa tækifæri til að koma fram sem djörf og sterk rödd meðal þjóða við að hægja á þeysireiðinni inn í ofhlýnun jarðar og koma með ábendingar og kröfur um lausnir. Til þess höfum við þekkingu og ríka ástæðu. Ella líkjumst við litlu stúlkunni með eldspýturnar í sögu Hans Christians Andersen, nema hvað vandamálið er ekki kuldi heldur varmi.




Skoðun

Sjá meira


×