Fastir pennar

Kaliforníuvæðing

Pawel Bartoszek skrifar
Kalifornía væri áttunda stærsta hagkerfi heims væri hún sjálfstætt ríki. Með sinn blómlega hátækni- og afþreyingariðnað ætti fylkið að hafa allar forsendur til að vera í ágætum málum fjárhagslega. Reyndin er hins vegar önnur. Kalifornía veður í skuldafeni. Um það eru flestir sammála. Það eru ekki allir jafnsammála um ástæðurnar en beint lýðræði er þó oftar en ekki nefnt sem skýring.

Árið 1978 samþykktu kjósendur í Kaliforníu svokallaða tillögu 13, stjórnarskrárbreytingu sem fól í sér að skattahækkanir þurftu framvegis að njóta aukins meirihluta á þinginu. Þar með hófust vandræðin. Tekjur ríkisins voru nú takmarkaðar að ofan. Tíu árum síðar, árið 1988, var samþykkt önnur tillaga sem fól í sér að 40% af fjárlögum fylkisins væru þar eftir eyrnamerkt menntun, og þau mátti ekki skera niður frá árinu áður nema með auknum meirihluta. Þar með var stór hluti útgjaldanna orðinn ósnertanlegur. Margar aðrar slíkar tillögur hafa fylgt í kjölfarið og tillögum sem þessum verður ekki snúið við nema með auknum meirihluta eða annarri þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er vandinn í hnotskurn: a) kjósendur vilja borða köku b) kjósendur vilja ekki borga fyrir köku.

Flestir virðast nú á því að auka veg beins lýðræðis, láta fólk kjósa um meira og oftar. Þannig tala allir stjórnmálaflokkar og tillögur stjórnlagaráðs stíga talsvert langt í þá átt. Kannski eru þær hugmyndir ekki algalnar. En dæmin frá Kaliforníu sýna alla vega að nokkur víti þarf að varast. Og ef við sem kjósendur eigum að ráða útgjöldum ríkisins þurfum við að búa okkur undir að ákveða: Viljum við vera nísk eða gjaldþrota?

Tillögur að útgjöldum hljóma sjaldan illa. Fátt er með öllu illt ef það kostar milljarð. Nú hefur SÁÁ farið af stað með tillögu að frumvarpi um að 10% af áfengissköttum verði framvegis varið í málaflokk sem SÁÁ-mönnum stendur nærri hjarta. Hljómar vel en þetta er eitt skref af mörgum í átt að gjaldþroti ríkissjóðs. Ef við treystum okkur ekki til að hafna velhljómandi útgjaldatillögum sem þessum þá eigum við ekki að taka upp beint lýðræði. Nema að við beinlínis viljum verða gjaldþrota.

Skoðum þetta í samhengi: Á seinasta ári námu heildarskatttekjur hins opinbera 517 milljörðum króna. Þar af voru áfengisskattar 11 milljarðar. Nú hefur sem sagt komið fram látlaus tillaga um að litlum 1,1 milljarði af þessu fé verði framvegis, sama hvað á dynur, varið í einn málaflokk, endurhæfingu áfengissjúklinga að lokinni meðferð. Einföld deiling sýnir því að það þarf nákvæmlega 470 svona hugmyndir til að allar tekjur ríkisins verði eyrnamerktar einhverjum góðum málefnum. En skrefin geta hæglega orðið stærri og leiðin að gjaldþroti þar með styttri.

Í tillögum stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að 2% kjósenda (um 4.600 manns) geti lagt fram þingmál á þingi. Þá munu 10% (um 23.000) geta knúið fram atkvæðagreiðslu um frumvarp sem kjósendur hafa samið. Þegar þetta er skrifað hafa rúm tíu þúsund skrifað undir undirskriftarsöfnun SÁÁ. Forsvarsmenn söfnunarinnar gætu þá nú þegar lagt fram þingsályktunartillögu eða frumvarp fyrir þingið miðað við tillögur stjórnlagaráðs.

Bæði skattalög og fjárlög eru undanþegin þjóðaratkvæðagreiðslum skv. tillögum stjórnlagaráðs svo mér sýnist tillaga SÁÁ ekki tæk í þjóðaratkvæði skv. þeim. Jafnvel þótt svo væri gæti þingið samt ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan væri einungis ráðgefandi. Síðan gæti Alþingi áfram numið brott lög sem samþykkt eru í þjóðaratkvæði eins og hver önnur. Varnaglar eins og þeir sem hér eru nefndir skipta máli, mun meira máli en hvers kyns þröskuldar. Þeir þingmenn, og aðrir, sem vilja vinna með þessi mál áfram ættu að hafa það hugfast.

Tillögur eins og „Betra líf" eru kannski ekki það alversta sem hent getur Ísland ef beint lýðræði skýtur rótum. En þetta er líklegast það sem við munum hvað oftast eiga von á. Stór, ágætlega skipulögð félagasamtök að beita áhrifum sínum til að knýja fram atkvæðagreiðslu um það sem þeim stendur næst hjarta, með von um að geta kannski kosið til sín einhverja fjármuni. Vörum okkur á því. Við þurfum ekki að Kaliforníuvæða Ísland. Alla vega ekki hvað fjármálin varðar.






×